Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stjórnarsamstarfið traust frá fyrsta degi

Mynd með færslu
 Mynd: grafík: Geir Ólafsson - RÚV
Forsætisráðherra segir mikið traust hafa ríkt milli oddvita ríkisstjórnarinnar frá fyrsta degi en fimm ár eru í dag frá því að til þessa samstarfs var stofnað. Hún útilokar ekki hrókeringar milli embætta. Varaformaður Framsóknar hefur fulla trú á að stjórnarflokkarnir klári kjörtímabilið.

Forsætisráðherra segir að þó margt hafi gengið á og áskoranir verið margar þá gangi samstarfið afar vel og traust ríki. Fimm ár eru í dag síðan stjórnarflokkarnir hófu fyrra kjörtímabil sitt. Þá hafi kórónaveirufaraldurinn sett svip sinn á tímabilið.

„Þegar sóttvarnaráðstöfunum var létt tók við innrás Rússa í Úkraínu þannig að við erum búin að vera að takast á við getum við sagt mjög óvenjulega tíma og þetta hefur að sjálfsögðu haft áhrif hér heima þótt áhrifin af stríðinu séu verst fyrir íbúa Úkraínu þá eru auðvitað áhrifin hér heima verðbólga og breyttar forsendur í efnahagslífinu sem auðvitað er krefjandi að takast á við. Ríkir mikið traust milli oddvita stjórnarflokkanna? Já það er algerlega óbreytt frá fyrsta degi það ríkir mikið traust. Sérðu fyrir  þér að það verði hrókeringar milli embætta milli ráðherra á þessu kjörtímabili? Ég útiloka það ekki, “ segir Katrín Jakobsdóttir í viðtali við fréttastofu í dag.

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins tekur í sama streng.

„Þetta stjórnarsamstarf er mjög farsælt hún nær yfir ég myndi segja hún er mynduð frá miðjunni, frá miðjunni til vinstri, frá miðjunni til hægri, ég held við sjáum það hvernig gengur bæði í hagkerfinu og hvernig við höfum verið að fjárfesta í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og í nýsköpun og í menningunni að við séum öll sátt við höfum auðvitað öll aldrei haldið þessu stjórnarsamstarfi áfram nema við höfðum haft umboð og það væri mikið traust til formanna ríkisstjórnarflokkanna. Ertu bjartsýn á að þið klárið þetta kjörtímabil saman? Já að sjálfsögðu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir.

 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV