Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Semja við Klíníkina um aðgerðir vegna endómetríósu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjúkratryggingar Íslands hafa samið við Klíníkina um kaup á aðgerðum vegna endómetríósu. Samningurinn kveður á um að þeir sem eru í brýnustu þörfinni njóti forgangs.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, segir þar að það hafi verið algjört forgangsmál í heilbrigðisráðuneytinu undanfarið að stytta biðlista. 

„Í þeirri vinnu hefur áhersla verið lögð á víðtæka samvinnu og að nýta beri krafta allra sem veita heilbrigðisþjónustu í landinu til að tryggja jafnt aðgengi og jafnræði. Samningurinn um aðgerðir vegna endómetríósu er mikilvægur áfangi í slíkri samvinnu,“ segir Willum í tilkynningunni. 

Klíníkin byggir upp sérhæfða þjónustu fyrir sjúkdóminn en þverfaglegt endómetríósuteymi var stofnað á Landspítala 2017. Með samningnum við Klínikina fjölgi því úrræðum vegna endómetríósu og þjónustan eflist. 

Almennar reglur um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu gilda um greiðslur sjúklinga sem fá þjónustu á grundvelli samningsins. 

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV