Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir ekki tilefni til verðlækkana hér

Mynd með færslu
 Mynd:
Verð á hrávöru og málmum hefur lækkað talsvert undanfarna mánuði og síðustu vikur hefur orkuverð einnig lækkað. Þessar verðlækkanir hafa ekki komið fram í verðlagi hér á landi.

Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Verslunar og þjónustu sagði í Morgunútvarpi Rásar 2 þær hækkanir sem hafa orðið á matvælaverði annars staðar í Evrópu ekki hafa skilað sér hingað til lands, því geti neytendur hér á landi ekki búist við verðlækkunum.

„Það gleymist mjög oft í umræðunni að allt að 40% af meðalkörfunni í matvörubúðum eru innlendar vörur ekki síst landbúnaðarvörur og þær hafa hækkað, ég fullyrði það, þær hafa hækkað mun meira en innfluttar vörur. Það gleymist mjög oft í umræðunni. Skuldinni er skellt á verslun og innfluttar vörur en það, eins og ég segi, stenst ekki," segir Andrés.

Samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs er Ísland er með næst lægstu verðbólgu í Evrópu. „Afleiðingar stríðsins fyrir atvinnurekstur í Evrópu er náttúrulega bara skuggalegur. Orkukreppan sem þar ríkir hittir atvinnurekstur og ekki síst verslun í Evrópu með mjög afgerandi hætti. Við berum okkur saman núna við ástandi í Evrópu og þá orkukreppu sem þar ríkir, við erum í einstakri stöðu."