Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lið dagsins: Áströlsku fótboltakengúrurnar

epa10339495 Bailey Wright (C) of Australia and teammates celebrate with fans after winning the FIFA World Cup 2022 group D soccer match between Australia and Denmark at Al Janoub Stadium in Al Wakrah, Qatar, 30 November 2022.  EPA-EFE/Abir Sultan
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Lið dagsins: Áströlsku fótboltakengúrurnar

30.11.2022 - 22:36
Á hverjum degi HM í fótbolta velur íþróttadeild RÚV leikmann eða lið dagsins. Á ellefta keppnisdegi var liðsheild Ástralíu fyrir valinu og gerum við öskubuskuævintýri þeirra hér skil. Skotar upp til hópa, ævintýrið 1974 og glæsilegt yfirvaraskegg kemur við sögu.

Ef litið er snöggt yfir hóp Ástrala á HM er ekki mikið sem grípur augað. Ein helsta stjarnan þeirra er markvörðurinn Mathew Ryan sem er hvað þekktastur fyrir að spila með Brighton í ensku úrvalsdeildinni. Nú spilar hann með FC Kaupmannahöfn og er þar liðsfélagi íslensku ungstirnanna Ísaks Bergmanns, Hákons Arnars og Orra Steins. 

Fyrir fram töldu spekingar að ástralska liðið væri ekki líklegt til afreka. En nú er liðið á leið í viðureign gegn Messi og félögum í Argentínu í 16 liða úrslitum.

Gífurleg fagnarlæti brutust út í Ástralíu er lokaflautið gall í 1-0 sigri þeirra gegn Dönum. Skipti þá litlu að hánótt var þar í landi, eða réttara sagt 03:30.

Liðið sigraði einnig Túnis með einu marki gegn og náði að hrista af sér svekkelsið sem fylgdi 4-1 tapi gegn Frökkum í opnunarleiknum.

epa10339497 Players and fans of Australia celebrate after winning the FIFA World Cup 2022 group D soccer match between Australia and Denmark at Al Janoub Stadium in Al Wakrah, Qatar, 30 November 2022.  EPA-EFE/Abir Sultan
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ástralir fögnuðu úrslitunum vel og innilega með stuðningsfólki sínu.

Kengúrurnar að skrifa söguna

Ástralska karlalandsliðið er jafnan kallað fótboltakengúrurnar (e. Socceroos) en liðið er nú sínu sjötta heimsmeistaramóti. Til eru frægar sögur af för þeirra á HM 1974 í Þýskalandi þar sem liðið komst þó ekki upp úr riðlinum, né komst það á blað.

Frá 1978 til 2002 tóku Ástralar ekki þátt en á þeim tíma spiluðu þeir í undankeppni í Eyjaálfu. Þá fóru sigurvegararnir úr Eyjaálfu í erfitt umspil við Suður Ameríkuþjóð. Sigruðu Ástralar lið Úrúgvæja í umspili um sæti á HM 2006 í Þýskalandi. Liðið fór upp úr riðlinum eftir fræknar frammistöðu en datt úr gegn verðandi heimsmeisturum Ítala eftir 1-0 tap.

Þá fluttist liðið yfir í Asíska knattspyrnusambandið og keppti því í þeirri undankeppni. Virðist sú breyting hafa heppnast ansi vel en Ástralía hefur leikið á síðustu fimm mótum.

Árangurinn hefur þó ekki verið upp á marga fiska en liðið hefur ítrekað dottið út í riðlakeppninni, þar til nú.

Lítt þekkt lið - en þetta er helst

Á þessum árum þekktu knattspyrnuaðdáendur nöfn í liðinu. Harry Kewell, Mark Viduka, Lucas Neill og Tim Cahill voru allt leikmenn sem spiluðu við góðan orðstír í ensku úrvalsdeildinni.

Áðurnefndur Ryan situr sem fastast milli stanganna en helstu hetjur Ástrala á HM hingað til hafa verið þeir Souttar, Leckie, Irvine og Leckie.

Mathew Leckie skoraði sigurmark þeirra í kvöld en sá átti farsælan tíu ára feril í þýsku úrvalsdeildinni. Lék hann með Borussia Moenchengladbach, FSV Frankfurt, Ingolstadt og loks Herthu Berlin áður en hann sneri aftur til heimahaganna. Nú er hann ein aðalstjarna Melbourne City í efstu deild Ástralíu, A League. 

Leckie vakti athygli fyrir frammistöðu sína á HM í Brasilíu 2014 og er með leikreyndar leikmönnum Ástrala, með 14 landsliðsmörk í 76 leikjum.

Hafði hann þá þegar skrifað undir samning við lið Ingolstadt í næstefstu deild í Þýskalandi, en kveðst ekki hafa séð eftir vistaskiptunum.

epa10339250 Mathew Leckie of Australia celebrates after scoring the 1-0 during the FIFA World Cup 2022 group D soccer match between Australia and Denmark at Al Janoub Stadium in Al Wakrah, Qatar, 30 November 2022.  EPA-EFE/Rolex dela Pena
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Leckie fagnar marki sínu í kvöld gegn Dönum.

Harry Souttar hefur vakið athygli fyrir vaska framgöngu sína á mótinu. Þessi 24 ára gamli varnarmaður Stoke City er ekki vanur að berjast gegn köppum eins og Kylian Mbappe en hefur ekki látið sitt eftir liggja.

Hann er uppalinn í Dundee en hefur spilað með Stoke síðustu sex ár í næst efstu deild Englands. Var hann fyrst um sinn í unglingaliðum Skotlands. En þessi skosk-ástralski leikmaður skipti yfir í Ástralíu 2019 og sér ekki eftir því enda kominn með sex mörk í tólf landsleikjum, sem verður að teljast ansi gott fyrir varnarmann. Fjögur af þeim hafa komið gegn Taipei og Nepal, sem að verður að teljast ansi fjarri þeirri mótstöðu sem hann hefur mætt á HM hingað til.

Í undirbúningi mótsins lék hann einungis einn leik fyrir Stoke, gegn Luton þann 8. nóvember síðastliðinn. Undirbúningurinn var því ekki með besta móti en það stöðvaði ekki varnarmanninn.

epa10339043 Harry Souttar (L) of Australia in action against Martin Braithwaite (R) of Denmark during the FIFA World Cup 2022 group D soccer match between Australia and Denmark at Al Janoub Stadium in Al Wakrah, Qatar, 30 November 2022.  EPA-EFE/Abir Sultan
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Souttar í baráttunni gegn Dönum

Síðast en ekki síst má nefna hlut Jackson Irvine en sá hefur verið óþreytandi á miðju Ástrala á mótinu. Yfirvaraskegg hans hefur vakið þó nokkra athygli en hann þykir auk þess einkar fastur fyrir. Irvine fór ungur að árum í unglingalið Celtic og lék með yngri landsliðum Skota líkt og Souttar. Ástralar voru þó ekki lengi að fá Irvine aftur heim.

Leikmaðurinn hefur verið að fara á milli liða í neðri deildum Englands en er nú kominn í þýska liðið St. Pauli í næstefstu deild Þýskaland. St. Pauli er eftirlæti margs fótboltanördsins en pólítík liðsins og áhangenda þess þykir mjög svo róttæk til vinstri. Liðið er í eins konar andstöðu gegn HSV sem minna lið Hamborgar og er sérlega andkapitalískt.

Irvine virðist una sér nokkuð vel í Hamborg sem og á vellinum í Katar.

Leikur Ástrala og Argentínu fer fram laugardaginn 3. desember klukkan 19:00.

epa10329547 Aissa Laidouni (down) of Tunisia in action against Jackson Irvine (L) of Australia during the FIFA World Cup 2022 group D soccer match between Tunisia and Australia at Al Janoub Stadium in Al Wakrah, Qatar, 26 November 2022.  EPA-EFE/Tolga Bozoglu
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Irvine í baráttuni gegn Túnis.