Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Funda áfram í karphúsinu en spara miklar yfirlýsingar

30.11.2022 - 10:53
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Það er áfram fundað í húsnæði ríkissáttasemjara í dag. Klukkan tíu hófst fundur með samfloti iðnaðarmanna og tæknifólks. Fréttastofa leit við í upphafi fundar í morgun, en þar voru menn sparir á yfirlýsingar um árangur.

„Það er allt svo óljóst ennþá. Meðan menn eru að talast við þá er alltaf von,“ sagði Finnbjörn Hermannsson, formaður Byggiðnar.

„Við erum jákvæðir við borðið, þurfum að taka þennan fund í dag og sjá hvert það leiðir okkur. VIð mætum til þess að vinna. Það er verið að ræða ýmis atriði en ekkert hægt að segja frá neinu og ekkert fast í hendi,“ sagði Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins og forseti Alþýðyusambands Íslands.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.

Allir mættir til að gera sitt besta

Klukkan 13 hefst svo fundur með Starfsgreinasambandinu. Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari segir allt í réttum farvegi hvað viðræðurnar varðar.

„Það hefur mikil vinna átt sér stað hérna í húsinu undanfarna daga. Það var langur dagur í gær og við erum búin að plana mjög þéttan dag í dag líka,“ sagði Aðalsteinn í morgun. Hann vildi ekki fullyrða neitt um hvort samningar væru að nást.

„Það eru allavega allir mættir til þess að leggja sig fram og gera sitt besta. Það er allt sem ég get beðið um.

Stundum er talað um að það séu árangurslausir fundir af því þeim lýkur ekki með samningum. En það getur verið heilmikill árangur í því að tala sig þétt í gegnum málin og fara yfir öll gögn, skilja hagsmuni hvors annars til þrautar. Og það er það samtal sem hefur átt sér stað hérna undanfarna daga,“ segir Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.