Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Veita unglingum á Norðurlandi stuðning eftir ofbeldi

29.11.2022 - 12:04
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarmahlíð - Aðsent
Bjarmahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, hefur opnað dyr sínar fyrir ungmennum á aldrinum sextán til átján ára. Starfsfólk segir unglinga hafa leitað talsvert til þeirra vegna ofbeldis, þó þau hafi fram að að þessu aðeins boðið upp á stuðning fyrir fullorðna.

Forsvarsmenn Bjarmahlíðar undirrituðu samkomulag við alla framhaldsskóla á Norðurlandi í síðustu viku, um aukna fræðslu um ofbeldi og stuðning við fagaðila.

Sigríður Ásta Hauksdóttir, verkefnisstjóri hjá Bjarmahlíð, segir einn mikilvægasta þátt verkefnisins að ræða við unga fólkið í gegnum nemendafélögin. Þau séu best til þess að meta þörfina fyrir stuðning eftir ofbeldi meðal jafnaldra sinna.

„Þau sem hafa helst leitað hingað það er einmitt vegna ofbeldis í nánum samböndum, það eru svona þessi jafningja samskipti“, segir Sigríður.

Unglingunum býðst stuðningur eftir áföll og unnið verður að valdeflingu, sem gæti verndað gegn ofbeldi síðar á lífsleiðinni.

70% sem leita til Stígamóta urðu fyrir ofbeldi fyrir 17 ára aldur

„Við vitum og það sem tölur eru að segja okkur og nú ætla ég bara að vitna til dæmis til nýjustu skýrslu Stígamóta, 70% af þeim sem leituðu þangað á síðasta ári, þeir urðu fyrir kynferðisofbeldi fyrir 17 ára aldur. Þannig við vitum alveg að þarna þurfum við að gera betur“, segir Sigríður.