Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þarf ekki að gleyma umfjöllun um þekktan Íslending

29.11.2022 - 22:07
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Persónuvernd telur að Google hafi ekki brotið á þekktum Íslendingi þegar tæknirisinn neitaði að fjarlægja leitarniðurstöður með umfjöllun um meint einelti sem Íslendingurinn átti að hafa viðhaft á vinnustað sínum. Persónuvernd horfði til þess að með hliðsjón af atvinnu viðkomandi og hlutverki í þjóðlífinu væru hagsmunir almennings af því að geta lesið fréttirnar meiri en hagsmunir hans að fá fréttirnar fjarlægðar.

Persónuvernd birtir ekki úrskurðinn í heild þar sem hann er talinn innihalda of nákvæmar upplýsingar um Íslendinginn, jafnvel þó persónuauðkenni séu afmáð. 

Sama var gert fyrir þremur árum þegar einstaklingur í opinberri stöðu freistaði þess að fá greinar um sig fjarlægðar af Google. Í þeim var að finna ásakanir um ámælisverða háttsemi. 

Á vef Persónuverndar kemur fram að Íslendingurinn hafi farið þess á leit við Google að greinarnar um meint einelti hans á vinnustað yrðu fjarlægðar úr leitarvélinni. Ekki kemur hvenær hann óskaði eftir þessu. 

Google hafnaði beiðninni þar sem fyrirtækið taldi fyrirliggjandi gögn ekki gefa til kynna að ásakanir um einelti væru rangar. Þá væri stutt síðan umfjöllunin birtist, hún væri talin þjóna almannahagsmunum og tengdist störfum viðkomandi. 

Persónuvernd segir í úrskurði sínum að það skipti máli hvort fréttaumfjöllun í málum eins og þessum snúi að aðalstarfi og aðstæðum á vinnustað viðkomandi eða persónulegum högum í einkalífi. 

Þá verði að horfa til þess hvort viðkomandi sé opinber persóna, til að mynda stjórnmálamaður eða gegni opinberu hlutverki.  Þeir njóti stöðu sinnar vegna ekki sömu einkalífsverndar í umræðu um málefni sem eiga erindi til almennings.

Niðurstaða Persónuverndar var því sú að með hliðsjón af atvinnu og hlutverki í þjóðlífinu væru hagsmunir almennings af því að hafa aðgang að þessari umfjöllun meiri en einkalífshagsmunir Íslendingsins.  

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV