Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Telur að það sé mikið svigrúm til launahækkana

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er mikið svigrúm til launahækkana, að mati Stefáns Ólafssonar, prófessors emeritus í félagsfræði og efnahagsráðgjafa Eflingar í yfirstandandi kjaraviðræðum. Hann segir að viðræður Eflingar og Samtaka atvinnulífsins gangi hægt en von sé á tilboði frá SA á samningafundi í dag.

Stefán segir að kaupmáttur launþega hafi verið skertur mikið. „Og þetta er allt að gerast í því samhengi að árið í ár er metár í hagvexti,“ bætir hann við.

„Hagvöxtur verður á milli sex og sjö prósent. Hæsta hagvaxtarspá er 7,3 prósent. Árið í fyrra var 4,4 prósent. Tvö mjög góð hagvaxtarár. Mjög mikill hagnaður hjá fyrirtækjum í fyrra. Hann verður án efa meiri í ár. Framleiðniaukning í kringum þrjú prósent, að öllum líkindum. Ef það kemur ekki kaupmáttaraukning í slíkum aðstæðum þá eykst hlutur fjármagnsins og atvinnurekenda af þjóðarframleiðslunni og hlutur launafólks minnkar og það er mjög óeðlileg framvinda.“

Þetta sagði Stefán í morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Hann segir að nánast enginn seðlabanki á vesturlöndum hafi hækkað stýrivexti eins mikið og íslenski seðlabankinn, og að hans mati hafa þessar hækkanir ekki haft nein áhrif á verðbólgu.  

Stefán segir allt stefna í samið verði til skamms tíma. Hann telur að Efling ætli að laga sig að því. Þó telur hann að það sé bagalegt að semja ítrekað til skamms tíma, því þá geti stjórnvöld ekki stigið inn af sama krafti.