Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sala á Huawei-búnaði bönnuð í Bandaríkjunum

28.11.2022 - 03:05
Erlent · 5G · 5g-væðing · Bandaríkin · Huawei · Netöryggi
epa07225192 A Chinese woman uses her mobile phone as she walks by a Huawei store in Beijing, China, 12 December 2018. Huawei is a Chinese communications technology company currently at the center of a trade dispute with the USA. On 01 December, Huawei CFO Meng Wanzhou was arrested by Canadian authorities on behalf of the USA, due to allegations of violating sanctions against Iran, via a subsidiary named Skycom. The USA has also accused Huawei of aiding in China's espionage operations.  EPA-EFE/WU HONG
 Mynd: EPA
Bandarísk stjórnvöld hafa bannað sölu og innflutning á fjarskiptatækjum frá fimm kínverskum tæknifyrirtækjum, þeirra á meðal Huawei. Þetta er gert vegna áhyggna af þjóðaröryggi en fyrirtækin eru sökuð um að deila gögnum um notendur með kínverskum yfirvöldum.

Stjórn bandarísku fjarskiptastofnunarinnar FCC samþykkti bannið einróma á fundi á föstudag.

Tækni frá Huawei er víða nýtt á Íslandi og netbeinar (e. routerar) frá fyrirtækinu eru algengir hjá íslenskum fjarskiptafélögum. Þá hefur fyrirtækið verið stórtækt í uppbyggingu 5G-innviða hér á landi, bæði fyrir Vodafone og Nova. 

Auk Huawei nær bannið til fyrirtækjanna ZTE, Hikvision, Dahua og Hytera. Þau hafa öll mótmælt banninu og sagt að það hafi enga þýðingu fyrir bandarískt þjóðaröryggi en muni aðeins bitna á neytendum. Fyrirtækin hafa enda þvertekið fyrir að deila gögnum með stjórnvöldum í Peking.

Bannið er ekki afturvirkt og því geta fyrirtækin áfram selt þá vöru sem hafði verið samþykkt til sölu í landinu.

Stórtækir í uppsetningu 5G-búnaðar hér á landi

Áhyggjur af notkun kínversks tæknibúnaðar eru ekki nýjar af nálinni og hafa ýmis skref verið tekin á Vesturlöndum til að takmarka notkun hans. En blátt bann sem þetta er einsdæmi í Bandaríkjunum, fullyrðir breska ríkisútvarpið.

Bandaríkin settu Huawei stólinn fyrir dyrnar við uppsetningu 5G-netkerfa vegna áhyggna af gagnaöryggi. Mörg önnur ríki fetuðu í fótspor þeirra, svo sem Svíþjóð, Danmörk og Kanada.