Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Langstærsta verkefnið sem lögreglan hefur tekist á við

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að leiðtogafundur Evrópuráðsins sem haldinn verður á Íslandi í maí á næsta ári kalli á mikinn viðbúnað hjá lögreglu.

Þetta er fjórði leiðtogafundur Evrópuráðsins frá því það var stofnað fyrir 75 árum og búist við hátt í fimmtíu þjóðarleiðtogum hingað til lands í tengslum við fundinn.

Í tilkynningu sem forsætisráðuneytið sendi frá sér í byrjun nóvembermánaðar segir að fundurinn verði sá umfangsmesti sinnar tegundar sem Ísland hefur nokkurn tímann haldið.

Jón Gunnarsson dómsmálráðherra segir að fundurinn kalli á mikinn viðbúnað hjá lögreglu.

„Þetta er langstærsta verkefnið sem lögreglan hefur tekist á við. Það er áætlað að um 600 lögreglumenn þurfi að koma að þessu. Og þegar við horfum til þess að liðið í heild telur eitthvað 700 lögreglumenn þá gefur það auga leið að þetta er stórt og þetta er það stærsta sem lögreglan hefur tekist á við. Það mun þurfa aðstoð erlendra lögregluembætta í því að koma að þessu með okkur. Þetta mun kosta þó nokkrar fjárfestingar og mikinn rekstur,“ segir Jón.

Er þetta stærra verkefni en leiðtogafundurinn 1986?

„Já ég hugsa að þetta megi teljast stærra verkefni heldur en það og eins Nató fundurinn sem var hér á sínum tíma,“ segir Jón.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV