Europol fletti ofan af stærsta eiturlyfjahring Evrópu
Höfnin í Antwerpen í Belgíu er ein stærsta höfn Evrópu og heimsins, en um tólf milljón gámar fara um höfnina árlega. Flutningar hafa fjórfaldast á síðustu tuttugu árum og hafnaryfirvöld segja hvergi hægt að fá hraðari þjónustu, tollafgreiða vörur og koma þeim til neytenda. En þessi hraði hefur gert Antwerpen að griðastað glæpaklíka sem flytja kókaín í tonnatali um höfnina daglega.
Og þessi hraði er ein aðalástæðan fyrir því að Antwerpen verður fyrir valinu. Höfnin þykir ein sú besta í heimi og gefur sig út fyrir að geta komið til dæmis grænmeti og ávöxtum hraðar í gegn en aðrir, og þar sjá kókaíninnflytjendur tækifæri líka, því þegar gámar þurfa að komast í gegnum tollinn á nokkrum klukkustundum gefst aldrei tækifæri til að leita í nema 100-200 þúsund gámum árlega, af þeim tólf milljónum sem fara um höfnina.
Í fyrra lagði tollgæslan og lögregla hald á rúmlega 100 tonn af kókaíni í Belgíu, og 80 í Hollandi. Talið er að aðeins náist um 10 prósent af öllu því kókaíni sem smyglað er um höfnina og við það miðast áætlanir eiturlyfjahringanna. Þeir senda gám eftir gám troðfulla af eiturlyfjum til Belgíu og treysta á að níu af hverjum tíu komist til félaga þeirra á meginlandi Evrópu.
Markaðsvirðið yfir 5 milljarðar evra
Af þessum hundrað tonnum náðust nærri 90 í Antwerpen í fyrra og 100 tonna markið nálgast í ár, þó enn sé rúmur mánuður eftir af árinu. Þetta er orðið svo mikið að það vinnst ekki tími til að farga því. Kókfjallið á hafnarbakkanum bara stækkar og gripið hefur verið til þess að flytja það í stórum stíl í stað þess að farga því í brennsluofnum við höfnina sem eru ekki nógu stórir til að höndla allt þetta magn. Það næst sem sagt meira magn en hafnarstarfsmenn anna að farga. Og yfirvöld óttast mjög árásir glæpagengja á vöruhús þar sem kókið er geymt í stórum stíl því þar er eftir miklu að slægjast. Talið er að markaðsvirði efnisins sem náðst hefur í ár sé vel yfir fimm milljarðar evra.
Gangast við hlutverki músarinnar
Glæpaklíkur og áhrif þeirra verða sífellt sýnilegri í Antwerpen og í fleiri hafnarborgum í Vestur-Evrópu. Margar þeirra eiga rætur í austurhluta álfunnar og á Balkanskaga og beita sífellt meiri hörku sem Evrópubúar verða í auknum mæli varir við. Yfirvöld í Belgíu hafa líkt átökunum við leik kattarins að músinni, og gangast við hlutverki músarinnar því glæpagengin virðast alltaf skrefi á undan. Háar mútugreiðslur tíðkast, bæði til lögreglu en einnig hafnarstarfsmanna sem hafa fengið fúlgur fjár fyrir að færa til gáma á hafnarsvæðinu til að komast hjá ítarlegri tollskoðun. Þá var borgarstjóri Antwerpen, Bart De Wever, undir sólarhringseftirliti lögreglu í nokkrar vikur nýlega vegna lífslátshótana frá eiturlyfjagengjum. Þær eiga því orðið býsna margt sameiginlegt, hafnarborgirnar í Vestur-Evrópu og suður-amerískar borgir sem voru lengi umsetnar eiturlyfjabarónum sem stýrðu því sem þeir vildu stýra. Evrópusambandið kennir þessu meðal annars um ofbeldisöldu víða í álfunni.
Ofur-eiturlyfjahringur upprættur
Í morgun greindi Evrópulögreglan, Europol, frá því að dagana 8-19 nóvember hefðu 49 verið handtekin en þau eru talin tengjast stærsta eiturlyfjahring álfunnar. Þau voru handtekin á Spáni, í Frakklandi, Belgíu, Hollandi og Sameinuðu arabísku furstadæmunum, en sex þeirra voru handtekin í Dubai og þau eru talin efsta lag samtakanna. Talið er að það ofur-eiturlyfjahringur hafi stýrt um þriðjungi kókaíninnflutnings til álfunnar. Í tilkynningu frá Europol segir að þetta sé stórt skref í baráttunni gegn skipulagðri glæpastarfsemi í Evrópu og þakkað góðu samstarfi lögregluembætta yfir 50 ríkja, þar á meðal Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Kókaín er eitt allra vinsælasta eiturlyf heims, og í Evrópu er talið að kannabis og kókaín berjist um toppsætið í vinsældum. Það er nokkur munur milli landa en kókaínnotkun er mest í Suður- og Vestur-Evrópu. Talið er að fjórtán milljónir Evrópubúa á aldrinum 15-64 ára hafi prófað kókaín. Það er nærri fimm prósent allra íbúa álfunnar á þessu aldursbili.
Verðið hærra og framboðið nægt
Verðið á kókaíni er hærra í Evrópu en í Bandaríkjunum og framboðið stöðugt, og þó að tollayfirvöld og lögregla hafi lagt hald á metmagn kókaíns á hverju ári síðustu fimm ár hefur það ekki hreyft við verðinu, sem bendir til þess að þrátt fyrir að það takist að leggja hald á tugi tonna í einu hefur það engin áhrif á framboð. Kókaínneysla virðist vera að aukast mikið í Evrópu. Það er aðallega flutt þangað beint frá Suður-Ameríku, ýmist með flugi eða flutningaskipum. Langmest næst í höfnum í Belgíu og Hollandi og síðan á Spáni. Magnið sem náðist í þessum þremur löndum árið 2020 var 73% af því sem lögreglu eða tollayfirvöldum tókst að ná í allri álfunni þetta ár. Þá náði kókaínið tæpum 215 tonnum og það var að minnsta kosti 240 í fyrra. Talið er að það sé komið vel yfir 250 tonn í ár. Mest af því er framleitt í Kólumbíu og Perú, þar sem kókaínekrur hafa stækkað um 43 prósent síðan 2020.
Saga kókaíns og Kólumbíu er samofin síðustu áratugina en þaðan kemur mest af því efni sem eiturlyfjahringir, smyglarar og glæpaklíkur dreifa um allan heim. Bandaríkin eru enn stærsti markaðurinn og þarlend yfirvöld hafa síðustu áratugi beitt sér mjög til að freista þess að hindra framleiðsluna og flutninginn yfir hafið en oftast án mikils árangurs. Í byrjun aldarinnar var sótt mjög að bændum sem rækta kóka-plöntuna og kókið er unnið úr en landsvæðið sem fór undir kóka-plönturækt minnkaði um 70 prósent frá aldamótum til ársins 2012. Síðan jókst ræktunin að nýju og náði hámarki 2017.
Hvað er verra, kol, olía eða kókaín?
Ræktunin sveiflast eftir því hver er við völd og hvernig friðarviðræður stjórnarinnar og byltingarhers Kólumbíu, FARC, standa. Nýr forseti, Gustavo Petro, tók við embætti í haust og hann hefur lagt til nýja nálgun í baráttunni sem hefur í áratugi einkennst af stríðsrekstri gegn eiturlyfjum og þeim sem þau framleiða og dreifa. Hann leggur til afglæpavæðingu að hluta, og bændum verði leyft að rækta kókalaufin í litlum mæli en verði svo greitt fyrir að stunda aðra ræktun í regnskógum Kólumbíu, sem eru á hröðu undanhaldi. Petro segir þetta ekki síst mikilvægt vegna loftslagsbreytinga, að halda í skóglendið sem hafi verið litið hornauga svo lengi af til dæmis Bandaríkjamönnum, sem vilji eyða öllu grænu sem vex í Kólumbíu.
Hvað er eitraðra og hættulegra mannkyni, kókaín, kol eða olía, spurði Petro á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York á dögunum. Valdhafar telji að kókaín sé eitur sem þurfi að að eyða, því dauðsföll verði vegna ofskömmtunar, en á meðan eigi að vernda kolin og olíuna, þrátt fyrir að það sé að gera út af við mannkynið.
Nýtt upphaf í stríðslok
Gustavo Petro er 34. forseti Kólumbíu og sagður fyrsti vinstri maðurinn til að gegna þessu embætti. Hann barðist ungur með skæruliðahreyfingum en var kjörinn á þing 1991. Hann hefur viljað aukinn stuðning frá ríkjunum sem stýra eftirspurninni eftir eiturlyfjunum en Kólumbía hefur í áranna rás fengið mikinn fjárstuðning frá Bandaríkjunum og verið einn helsti bandamaður þeirra í Suður-Ameríku. Þá hafa ríkin einnig verið bandamenn, að mestu, í stríðinu gegn eiturlyfjum sem Bandaríkin hafa háð í áratugi án mikils árangurs. Talið er að yfir milljón manna í Suður-Ameríku hafi látið lífið í þessu stríði sem hefur ekki dregið mjög úr valdi öflugra eiturlyfjabaróna og glæpagengja. Petro segir stríðið þegar tapað og reyna verði nýjar leiðir, en ólíklegt er að nágrannaríkin Bólivía og Perú styðji afglæpavæðingarhugmyndir Petros. Þá eru hægri menn í Kólumbíu ólíklegir til að styðja lagasetningu á kókaframleiðslu, þó flestir séu líklega sammála um að bregðast þurfi við og eiturlyfjastimpillinn hafi haft djúpstæð áhrif á Kólumbíu.
Eftirspurnin og umfangið meira en á tímum Escobars
En hvað er hægt að gera. Gustavo Petro segir að eftirspurnin eftir eiturlyfjum hafi sennilega aldrei verið meiri. Ekki einu sinni á tímum eiturlyfjabarónsins Pablo Escobar, þegar hann og félagar hans fluttu fleiri tonn af kókaíni vikulega víða um heim og græddu á tá og fingri. Á meðan eftirspurnin er næg er viðbúið að framboðið fylgi og það dugir skammt að rífa upp kókaplöntur, eltast við eiturlyfjahringi eða spreyja illgresiseyði yfir akrana. Þetta hafa verið leiðir Bandaríkjanna og Kólumbíu síðustu áratugi en breytinga er þörf. Og það dugir ekki til að ráðast að rót kókaplöntunnar í Kólumbíu því vandinn er mun stærri. Evrópusambandið telur að kókaín sé framleitt í stórum stíl innan Evrópu, glæpagengin byggi að stórum hluta starfsemi sína á framleiðslu, flutningi og sölu eiturlyfja. Stefna Evrópusambandsins þykir skýr en það hefur skort á samstarfsvilja, og líklegt að áfram verði tekið á vandanum með stríðsyfirlýsingum í stað aðgerða.