Japan vann óvæntan 2-1 sigur á Þýskalandi í 1. umferð riðlakeppninnar á meðan Kosta Ríka steinlá fyrir Spáni, 7-0. Japan gat með sigri í dag tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum, þó með þeim fyrirvara að Þýskaland ynni ekki Spán í kvöld.
Hajime Moriyasu þjálfari Japana gerði þó fimm breytingar á byrjunarliði sínu milli leikja, sem skilaði honum engu í dag. Engin færi voru í fyrri hálfleiknum, en í þeim seinni voru Japanar líklegri og héldu mun meira í boltann. Það var því gegn gangi leiksins að Keyshon Fuller skoraði sigurmarkið á 81. mínútu. Kosta Ríka vann þá boltann við vítateig Japana, eftir misheppnaða sendingu í vörn Japans. Fuller afgreiddi boltann laglega í markið og tryggði Kosta Ríka 1-0 sigur. Þetta er jafnframt eina skot Kosta Ríka á mark það sem af er HM.
Eina markskot Kostaríku í leiknum dugði til sigurs gegn Japan. Keyshon Fuller skoraði sigurmarkið á 81. mínútu. pic.twitter.com/RrO2MoUKKB
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) November 27, 2022
Kosta Ríka hefur nú þrjú stig í E-riðli rétt eins og Japan og Spánn. Spánn og Þýskaland mætast svo í seinni leik dagsins í riðlinum klukkan 19:00 í kvöld í beinni útsendingu á RÚV 2.