Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eina skot Kosta Ríka til þessa skilaði þremur stigum

epa10331816 Keysher Fuller (R) of Costa Rica scores the opening goal during the FIFA World Cup 2022 group E soccer match between Japan and Costa Rica at Ahmad bin Ali Stadium in Doha, Qatar, 27 November 2022.  EPA-EFE/Ali Haider
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Eina skot Kosta Ríka til þessa skilaði þremur stigum

27.11.2022 - 12:01
Kosta Ríka hleypti lífi í E-riðil HM í fótbolta eftir óvæntan 1-0 sigur á Japan. Leikurinn sjálfur var þó afar bragðdaufur, svo vægt sé til orða tekið.

Japan vann óvæntan 2-1 sigur á Þýskalandi í 1. umferð riðlakeppninnar á meðan Kosta Ríka steinlá fyrir Spáni, 7-0. Japan gat með sigri í dag tryggt sér sæti í 16-liða úrslitum, þó með þeim fyrirvara að Þýskaland ynni ekki Spán í kvöld.

Hajime Moriyasu þjálfari Japana gerði þó fimm breytingar á byrjunarliði sínu milli leikja, sem skilaði honum engu í dag. Engin færi voru í fyrri hálfleiknum, en í þeim seinni voru Japanar líklegri og héldu mun meira í boltann. Það var því gegn gangi leiksins að Keyshon Fuller skoraði sigurmarkið á 81. mínútu. Kosta Ríka vann þá boltann við vítateig Japana, eftir misheppnaða sendingu í vörn Japans. Fuller afgreiddi boltann laglega í markið og tryggði Kosta Ríka 1-0 sigur. Þetta er jafnframt eina skot Kosta Ríka á mark það sem af er HM.

Kosta Ríka hefur nú þrjú stig í E-riðli rétt eins og Japan og Spánn. Spánn og Þýskaland mætast svo í seinni leik dagsins í riðlinum klukkan 19:00 í kvöld í beinni útsendingu á RÚV 2.