Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Konur, líf, frelsi“

Mynd með færslu
 Mynd: UN Women á Íslandi - Aðsent
Ljósaganga UN Women á Íslandi var gengin í gær, í fyrsta skipti síðan heimsfaraldrinum lauk. Yfirskrift göngunnar í ár var „Konur, líf, frelsi“ sem er einnig slagorð mótmælanna sem hafa staðið yfir í Íran síðan í september.

Gangan markaði upphaf sextán daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem UN Women eru í forsvari fyrir ásamt fjölda annarra félagasamtaka. 

Gengið var frá Arnarhóli að Bríetartorgi og var Harpan lýst upp í appelsínugulum lit en hann táknar von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis. 

Þær Zahra Mesbah frá Afganistan og Zoreh Aria frá Íran leiddu gönguna ásamt Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi. Fleiri frá Afganistan og Íran gengu fremst. 

Mynd með færslu
 Mynd: Heiðrún Fivelstad - Aðsent
Zoreh Aria gengur fremst í Ljósagöngu UN Women á Íslandi ásamt fólki frá Afganistan og Íran.

Zahra, sem er afgönsk en fæddist í Íran, hefur vakið athygli hér á landi fyrir röska framkomu við að vekja athygli á stöðu mála í heimalöndum sínum. Hún lagði áherslu á það sem sameinar mannfólkið en ekki það sem sundrar því í ræðu sinni á viðburðinum. „Það eina sem máli skiptir er að ég er manneskja, og allar manneskjur eiga skilið frelsi og að lifa með reisn.“

Zoreh brýndi fyrir viðstöddum nauðsyn þess að sýna írönskum konum stuðning í baráttu sinni fyrir frelsi. Hún sagði stúlkur í heimalandi sínu hætta lífi sínu til að mótmæla á götum úti á hverjum degi, tómhentar andspænis byssukúlum og táragasi. „Í þeirra huga er þetta einstefna og engin leið til baka, því það er ekkert til að snúa aftur til. Þær berjast fyrir frelsi og reisn. Við biðjum fólk um að standa með friði, frelsi og írönsku þjóðinni og að það biðji stjórnvöld um að grípa til aðgerða.“

Mynd með færslu
 Mynd: UN Women á Íslandi - Aðsent
Zahra Mesbah heldur ávarp á viðburðinum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, var einnig í göngunni og þakkaði Stella henni fyrir að hafa staðið með konum í Íran og mannréttindum á fundi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í vikunni. Á fundinum var samþykkt að fordæma framgöngu stjórnvalda í Íran gegn mótmælendum. Ályktun Íslands og Þýskalands um að koma á fót sjálfstæðri og óháðri rannsóknarnefnd til að safna gögnum sem gætu nýst í málaferlum gegn þeim sem bera ábyrgð samþykkt. 

Ljósmyndir tók Heiðrún Fivelstad.

Mynd með færslu
 Mynd: UN Women á Íslandi - Aðsent
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra, ásamt Elizu Reid, forsetafrú, á Arnarhóli.
ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV