Íran lagði Wales

epa10327215 Rouzbeh Cheshmi (R) of Iran celebrates with his goalkeeper Hossein Hosseini after winning the FIFA World Cup 2022 group B soccer match between Wales and Iran at Ahmad bin Ali Stadium in Doha, Qatar, 25 November 2022.  EPA-EFE/Friedemann Vogel
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Íran lagði Wales

25.11.2022 - 09:20
Í dag hófst önnur umferð riðlakeppninnar með leik Wales og Írans. Liðin eru í B-riðli en Wales var komið með eitt stig eftir jafntefli við Bandaríkin í fyrstu umferðinni. Íran var án stiga í neðsta sæti riðilsins fyrir leikinn. Leikurinn var markalaus eftir venjulegan leiktíma en Íran skoraði tvö mörk í uppbótartímanum og lagði þar með Wales 2-0.

Íran var yfirspilað í fyrsta leik sínum á þessu móti þegar liðið beið í lægri hlut 6-2 á móti enska landsliðinu. Í dag mætti allt annað lið til leiks á Ahmed bin Ali-leikvellinum í Katar. 

Fyrir leikinn sungu leikmenn Írans fálega með þegar þjóðsöngur þeirra var spilaður og áhorfendur púuðu á meðan. Leikmenn Írans sungu ekki með fyrir leikinn á móti Englandi þegar þjóðsöngur þeirra var spilaður sem mætti klárlega flokka sem mótmæli gegn ástandinu í heimalandi þeirra um þessar mundir.

Leikurinn hófst og ekki þurfti að bíða lengi eftir fyrsta tækifærinu þegar Wales komst í dauðafæri á elleftu mínútu. Kieffer Moore átti skot sem markvörður Írans varði.

Stuttu eftir dauðafæri Wales náðu Íranar að skora mark sem dæmt var af vegna rangstöðu eftir að dómari leiksins skoðaði VAR.

Staðan var markalaus í hálfleik og fyrstu mínútur seinni hálfleiksins voru tíðindalitlar. Á 83. mínútu leiksins var markvörður Wales rekinn af velli með rautt spjald eftir gróft brot á leikmanni Írans talsvert fyrir utan teig. Wales því einum manni færri það sem eftir lifði leiks.

Wales varðist vel eftir rauða spjaldið og sóttu leikmenn Írans fast að marki Wales. Níu mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og þær mínútur nýttu Íranar vel. Fyrsta mark þeirra kom á áttundu mínútu viðbótartímans þegar Roozbeh Cheshmi skoraði fyrsta mark leiksins og kom Íran yfir.

Íran var ekki hætt en rétt tveimur mínútum frá fyrsta marki þeirra kom annað mark er Ramin Rezaelan skoraði og Íran komið yfir í leiknum á lokasekúndunum.

Íran er með þessum sigri komið með þrjú stig í B-riðli og situr í öðru sæti riðilsins á eftir Englandi sem mætir Bandaríkjunum í síðasta leik dagsins. Wales á í hættu að komast ekki upp í milliriðlana og verður að reiða sig á góð úrslit í öðrum leikjum riðilsins og vinna næsta leik sinn á móti Englandi.

Íran mætir Bandaríkjunum í síðasta leik riðlakeppninnar þriðjudaginn 29. nóvember en Wales mætir Englandi sama dag.