Áhorfendum heimilt að skrýðast regnbogalitunum

epa10322231 A German fan wears a rainbow armband  as he clutches the German flag at the German soccer mobile fan zone in Doha, Qatar, 23 November 2022. The FIFA World Cup 2022 will take place from 20 November to 18 December 2022 in Qatar.  EPA-EFE/NEIL HALL
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Áhorfendum heimilt að skrýðast regnbogalitunum

25.11.2022 - 04:19
Banni gegn klæðnaði og fánum í regnbogalitunum hefur verið aflétt á áhorfendapöllum leikvanga heimsmeistaramótsins í Katar. Þetta kemur fram í tilkynningu Knattspyrnusambands Wales, sem kvartaði við alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA eftir að vallarstarfsmenn hirtu regnbogahatta, klúta og fána af stuðningsfólki liðsins á mánudag.

Í tilkynningunni segir að stjórn FIFA hafi staðfest að áhorfendum verði heimilt að flagga regnbogafánum og -fatnaði á leik liðsins gegn Íran í dag, og að það sama eigi við á öllum leikjum á öllum leikvöngum það sem eftir lifir móts.

Fannst sér ógnað þegar regnbogahatturinn var tekin af henni

Laura McAllister, fyrrverandi fyrirliði welska kvennalandsliðsins, var ein þeirra sem skikkuð var til að láta regnbogapípuhatt sinn af hendi á fyrsta leik hennar manna gegn Bandaríkjunum á mánudag, en hatturinn sá er einkennishöfuðfat Regnbogamúrsins, hinsegin-stuðningshóps welska landsliðsins.

McAllister tók því ekki þegjandi og hljóðalaust heldur greindi frá því í fjölmiðlum og sagðist hafa fundist sér ógnað með þessari framgöngu vallarstarfsfólks. Í framhaldinu lýsti Knattspyrnusamband Wales yfir „miklum vonbrigðum“ með þessa framkomu gagnvart stuðningsfólki sínu og kvartaði við FIFA, með þessum árangri.

Hörð gagnrýni vegna fjandsamlegrar afstöðu til hinsegin fólks

Katarar hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir afstöðu sína gagnvart samkynhneigðum og samkynja samböndum, mannréttindabrot og meðferð þeirra á erlendu farandverkafólki.

Áhorfendum og fjölmiðlafólki hefur ítrekað verið bannað að klæðast og flagga regnbogalitunum og sjö landslið voru skikkuð til að falla frá áformum sínum um að hafa fyrirliðabandið í öllum regnbogans litum. Sú skipun kom frá FIFA, vel að merkja, en ekki gestgjöfunum. 

Tengdar fréttir

Fótbolti

FIFA bannar ást Belga

Fótbolti

Sameiginleg yfirlýsing: Verða ekki með regnbogaarmbönd