Þétt fundað, ekkert útilokað og öllum steinum velt við

24.11.2022 - 19:18
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, segir að ákveðið hafi verið með aðilum vinnumarkaðarins í byrjun vikunnar að hafa mjög þétta dagskrá og vinna frá morgni til kvölds. Setið verði lengur við í dag, sennilega fram á kvöld en þó ekki fram í nóttina.

Þetta kom fram í kvöldfréttum.

Aðalsteinn segir að tilgangurinn með þessum þéttu fundarhöldum sé að ná snarpri lotu og sjá hverju hún skili.

Hann tekur undir með báðum aðilum að stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands í gær hafi ekki haft góð áhrif á viðræðurnar og að þær séu strembnar út af erfiðum ytri aðstæðum. 

Fram kom í fréttum í dag að einn möguleikinn væri að skrifað yrði undir skammtímasamning. Aðalsteinn segir að allir möguleikar verði skoðaðir og öllum steinum velt við. „Það er ekkert útilokað.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV