Talibanar hýða fólk á almannafæri

24.11.2022 - 13:31
epa10149513 The Taliban celebrate the first anniversary of the US withdrawal outside the building of the former US embassy in Kabul, Afghanistan, 31 August 2022. The Taliban government on 30 August, declared 31 August as a national day in Afghanistan, as part of the celebrations marking the first anniversary of the withdrawal of US troops and the end of two decades of foreign invasion.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Talibanastjórnin í Afganistan hefur tekið upp líkamlegar refsingar á almannafæri. Tólf voru barin með svipum í gær á fótboltaleikvangi frammi fyrir þúsundum áhorfenda. 

Þrjár konur og níu karlar voru dæmd til að þola svipuhögg fulltrúa talibanastjórnarinnar í Logar-héraði í gær. Þeim er öllum gefið að sök að hafa brotið siðgæðisreglur, svo sem að hafa haldið framhjá eða verið í sambandi með manneskju af sama kyni. Talið er að þetta hafi verið í annað sinn í mánuðinum sem fólk er hýtt á almannafæri á vegum ríkisins. 

Talsmaður talibana í héraðinu segir að konunum hafi verið sleppt eftir svipuhöggin en að sumir karlanna hafi verið settir á bak við lás og slá. Fólkið hafði verið dæmt til að þola á milli tuttugu og eitt og þrjátíu og níu svipuhögg. 

Fyrir viku skipaði leiðtogi talibana dómurum að taka upp líkamlegar refsingar fyrir ákveðna glæpi í samræmi við sharialög. Skipunin þykir til marks um að talibanar ætli ekki að standa við loforð um nútímalegri stjórnarhætti en áður. Líkamlegar refsingar tíðkuðust í valdatíð þeirra á tíunda áratugnum, þegar fólk var barið og líflátið á íþróttaleikvöngum. Þeir hafa líka gengið á bak orða sinna um að skerða ekki rétt kvenna. Margar konur verið barðar fyrir að taka þátt í mótmælum, þeim er bannað að vinna og mega ekki fara út úr húsi án fylgdar karlmanns.