Strætó fær viðbótarframlag á næsta ári

Mynd með færslu
 Mynd: Alexander Kristjánsson - RÚV
Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa samþykkt að hækka framlag sitt til Strætó til að tryggja rekstur á næsta ári. Ekki tókst að borga alla reikninga í síðustu viku áður en viðbótarfjármagn kom inn í reksturinn.

Fjárhagur Strætó versnaði mjög í covid þegar þjónustustigi var haldið háu þrátt fyrir að farþegum fækkaði mikið. Síðan hefur verið unnið að umbótum í fjármálum, en í síðustu viku tókst ekki að greiða alla reikninga. Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætós, segir að rétt áður en 520 milljóna króna aukafjárframlag sveitarfélaganna á þessu ári barst hafi þurft að hliðra reikningum til. Einn eða tvo reikninga hafi ekki tekist að greiða. Enginn þurfi þó að óttast að fá ekki greidd laun um mánaðamót, eða aðra reikninga, eftir að viðbótarféð barst.

„Síðan var í vikunni verið að samþykkja fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og þá kemur til viðbótar um 600 milljónir,“ segir Jóhannes. Framlag sveitarfélaganna hækki því í fimm milljarða á næsta ári. Strætó og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa einnig óskað aðkomu ríkisvaldsins að rekstri strætisvagnakerfisins.

Skipt verður um skanna í strætisvögnum til að hægt verði að innleiða snertilausar greiðslur á næsta ári. Skannarnir sem eru í vögnunum virkuðu illa í upphafi en það hefur að mestu verið lagað. Aðlögun fyrir snertilausu greiðslurnar er flóknari og því ákvað birgirinn að lokum að skipta þeim út. „Þessir skannar munu líka kannski leysa nokkra bögga sem hafa verið að angra okkur í núverandi skönnum þannig að þarna verða vonandi slegnar tvær flugur í einu höggi.“ Þessi skipti á skönnum kosta Strætó ekki krónu, segir Jóhannes. „Hann fellur hundrað prósent á birgjann.“