Spánn of stór biti fyrir Ísland í undankeppni EM

Mynd með færslu
 Mynd: KKÍ

Spánn of stór biti fyrir Ísland í undankeppni EM

24.11.2022 - 19:15
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta mætti Spáni í þriðja leik liðsins í undankeppni EM kvenna í körfubolta í kvöld. Ísland hafði tapað fyrstu tveimur leikjunum sínum í undankeppninni gegn Ungverjum og Rúmenum en mættu Spáni í fyrsta sinn í kvöld. Spánn er efst í riðlinum sem stendur með tvo sigra. Spánn var einfaldlega allt of stór biti fyrir Ísland í þessum leik sem lauk með stórsigri Spánar 120-54.

Spánverjar eru klárlega eitt besta landslið heims í körfubolta kvenna og voru þær allt of stór biti fyrir íslenska kvennalandsliðið í leik kvöldsins.  Spánverjar áttu þennan leik og enduðu á því að sigra með 66 stiga mun 120-54.

Staðan í hálfleik var 59-16 og þær spænsku stjórnuðu leiknum. Stigahæst í spænska liðinu var Maria Araujo með 19 stig, tíu fráköst og tvær stoðsendingra. Stigahæst í liði Íslands var Hildur Kjartansdóttir með 13 stig og fimm fráköst.

Næsti leikur Íslands í undankeppni EM verður á mót Rúmenum sunnudaginn 27. nóvember kl. 16:30 í Laugardalshöllinni.