Sakar Rússa um glæpi gegn mannkyni

epa10310998 A damaged private building and a tree in the recaptured village of Chekassky Tyshky in the Kharkiv area, Ukraine, 17 November 2022, amid Russia's military invasion. Kharkiv and the surrounding areas have been the target of heavy shelling since February 2022, when Russian troops entered Ukraine starting a conflict that has provoked destruction and a humanitarian crisis. At the beginning of September, the Ukrainian army pushed Russian forces from occupied territory northeast of the country in counterattacks.  EPA-EFE/SERGEY KOZLOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti sakaði Rússa um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni þegar hann ávarpaði Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna í gegnum fjarfundabúnað í gærkvöld. Hann lagði hart að ráðinu að gera allt sem í þess valdi stæði til að stöðva grimmilegar loftárásir Rússa á grundvallarinnviði Úkraínu.

Rússneskum sprengjum hélt áfram að rigna yfir borgir og bæi í Úkraínu í gær og urðu minnst sjö almennum borgurum að aldurtila, auk þess sem rafmagn fór af víða um land. Zelensky sagði fulltrúum Öryggisráðsins að rússneska „grimmdar-formúlan“ hefði neytt „milljónir til að lifa án orku, án hita og án vatns“ í ríkjandi vetrarkuldanum og slík framganga væri augljóslega glæpur gegn mannkyni.

Rússar hafa einbeitt sér mjög að orku- og veituinnviðum Úkraínu í þungum og víðtækum loftárásum síðustu daga og vikna og er nú svo komið að meira en helmingur Úkraínubúa er meira og minna án rafmagns og stór hluti þeirra býr við vatnsskort.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að við núverandi aðstæður séu líf milljóna Úkraínumanna í hættu þegar vetrarhörkurnar færast í aukana og sérfræðingum Sameinuðu þjóðanna reiknast til að um 14 milljónir Úkraínumanna hafi þegar flúið land.

Yfirmaður stærsta orkufyrirtækis landsins hefur hvatt landa sína til að halda áfram að flýja, svo hægt verði að tryggja sjúkrahúsum og öðrum nauðsynlegum stofnunum aðgang að þeirri orku sem þó sé fáanleg.