Rætt um skammtímasamning eftir fund með Katrínu

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RUV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kallaði forystumenn Alþýðusambandsins, Starfsgreinasambandsins, VR og Samtaka atvinnulífsins á sinn fund í morgun til að ræða stöðu kjarasamningaviðræðna. Stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær setti strik í reikninginn í viðræðunum. Mögulegt er að gengið verði frá skammtímasamningi í stað þess að semja til nokkurra ára. Eftir fundinn í stjórnarráðinu lá leið samningamanna í húsakynni ríkissáttasemjara til að halda áfram viðræðum.

Staðan gæti skýrst nokkuð þegar líður á daginn, hvort viðræðum verði haldið áfram eða þeim slitið. Gestir Katrínar sögðu að fundi loknum ánægjulegt sjá hvaða skilning stjórnvöld hefðu á gangi viðræðna. 

Ítrekaði vilja stjórnvalda

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist að fundi loknum hafa ítrekað það sem áður hefði komið fram um að stjórnvöld væru reiðubúin að koma að samningum ef raunhæft væri að þeir næðust. „Síðan var þessi fundur fyrst og fremst að minni ósk til að heyra ofan í aðila vinnumarkaðarins um stöðuna og mat þeirra á stöðunni. Þau munu fara yfir þetta með sínu baklandi núna hver áhrif þessara vaxtahækkana verða. Ég var fyrst og fremst að ítreka vilja stjórnvalda til að gera það sem í okkar valdi stendur til að greina fyrir þessum samningum.“

Aðspurð hvort æskilegt eða skiljanlegt væri að gengið yrði frá skammtímasamningi svaraði Katrín: „Ég held að allir aðilar átti sig á því að þróun efnahagsmála í heiminum hefur verið okkur ekkert sérstaklega hagfelld, fyrst heimsfaraldur og svo stríðsátök; verðbólga og margháttaðar afleiðingar af stríðsrekstri Rússa í Úkraínu. Auðvitað gerum við okkur öll grein fyrir því að óvissan er töluverð sem mögulega kann að gera skammtímasamning fýsilegri kost en það er algjörlega í höndum þeirra sem sitja við samningaborðið.“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RUV
Katrín Jakobsdóttir í viðtali eftir fund.

Gott samtal um stöðuna

Kristján Þórður Snæbjarnarson, forseti Alþýðusambands Íslands og formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, sagði mjög gott að eiga samtal um stöðuna og finna skilning hjá forsætisráðherra á þeirri stöðu sem er komin upp. „Vonandi mun það leiða okkur eitthvað áfram fram á veginn en það er samningsaðila að finna leiðir.“ Hann sagðist skynja vilja til að koma inn í málin ef þörf þykir.

Staðan í kjarasamningaviðræðum er brothætt eftir tíðindi gærdagsins segir Kristján Þórður. „Ég hef miklar áhyggjur af því sem er að gera og þessi stýrivaxtahækkun voru kolröng skilaboð inn í þá stöðu sem er við samningaborðið.“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RUV
Kristján Þórður Snæbjarnarson í viðtali eftir fund.

Skammtímasamningur möguleiki

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að forsætisráðherra hefði farið yfir mögulegar aðgerðir sem stjórnvöld gætu komið með til að liðka fyrir gerð kjarasamninga á vinnumarkaði.

„Ég hins vegar túlka fundinn með þessum hætti: Í gær urðu vatnaskil í þessum viðræðum.  Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin kusu að snúa bökum saman. Ég lít á þennan fund með þeim hætti að forsætisráðherra sé í raun að segja: Við stöndum með ykkur og kjósum að þið reynið að leysa úr þessum vandamálum og reynið að landa skammtímakjarasamningi eins fljótt og hægt er.“

Mynd: RUV / RUV

Ánægjulegt samtal en ekkert fast í hendi

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, sagði að fundi loknum að fram hefði komið góður vilji hjá forsætisráðherra til að fara yfir stöðuna. „Hún lýsti áhyggjum sínum yfir stöðunni og þau eru meðvituð um hvað getur gerst.“ Vilhjálmur sagði ánægjulegt að stjórnvöld væru reiðubúin að koma að lausn kjarasamninga en ekkert væri fast í hendi.

Fyrir fund sagði Vilhjálmur að Seðlabankinn hefði sett viðsemjendur í erfiða stöðu með vaxtahækkuninni í gær. „Þetta er einhver hagfræði sem ég á mjög erfitt með að skilja. Þarna er bara verið að færa fé frá skuldsettum heimilum yfir til fjármálakerfisins,“ sagði Vilhjálmur á leið á fund forsætisráðherra. „Ég held að það sé kannski ofsögum sagt að gangurinn hafi verið mjög góður. Það var einbeittur vilji samningsaðila við að ná saman, og hafa það að markmiði að við myndum stuðla að lækkandi verðbólgu, lækkandi vöxtum, þannig að við gætum aukið ráðstöfunartekjur okkar félagsmanna með fleiri þáttum en bara launahækkunum.“

„Þessi skilaboð, þessi leiktaktík Seðlabankans í gær, að senda okkur svona fingurinn setur okkur á allt annan stað.“ Vilhjálmur sagðist ekki ætla að túlka 0,25 prósentustiga stýrivaxtahækkun sem rosalegt högg en skilaboðin væru slæm. „Trúverðugleikinn í því að Seðlabankinn sé að fara að spila með heimilunum og fyrirtækjunum í þessari vegferð er bara horfinn.“

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RUV
Vilhjálmur Birgisson í viðtali eftir fund.

Stýrivaxtahækkun ýtti hugmyndum í viðræðum út af borðinu

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagðist fyrir fund vera ósáttur við stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær. „Við vorum að leggja upp með ákveðna hugmyndafræði sem snýr að því að ná niður vöxtum og verðbólgu. Það blasir við að þetta útspil í gær er búið að ýta öllum þeim hugmyndum út af borðinu.“

„Það hlýtur að blasa við,“ sagði Ragnar aðspurður hvort útspil stjórnvalda þyrfti til að leysa kjaradeiluna. Ekki næðist utan um stöðu hjá fólki með óverðtryggða breytilega vexti, fólk á leigumarkaði, verðhækkanir og gjaldskrárhækkanir sveitarfélaga.

Rætt hefur verið um mikla neyslu sem skýringu á stýrivaxtahækkun. Það er Ragnar ósáttur við. „Það eru mjög kaldar kveðjur, sérstaklega til þeirra sem höllustum fæti standa í þjóðfélaginu og þurfa mest á launahækkunum að halda að efsta lag samfélagsins sé að eyða of miklu, að það þurfi að refsa öllu þjóðfélaginu og almenningi fyrir það.“ Hann segir að verðbólgan sé mest til komin vegna vanrækslu stjórnvalda í húsnæðismálum og hagstjórnarmistaka Seðlabankans við að lækka vexti og hratt án þess að bregðast við með mótvægisaðgerðum á húsnæðismarkaði.