Kalt og dimmt í Kænugarði

24.11.2022 - 18:20
Mynd: AP - Evgeniy Maloletka / AP - Evgeniy Maloletka
Þoka grúfði yfir Kænugarði, höfuðborg Úkraínu í dag. Það rigndi og hitinn var rétt yfir frostmarki. Útlit er fyrir að hann hangi nálægt núllinu í nótt. Borgarbúum er kalt, enda eru sjö tíundu hlutar borgarinnar án rafmagns eftir árásir rússneska innrásarliðsins á lífæðar samfélagsins undanfarnar vikur, þar á meðal raforkuver og vatnsveitur.

Hans Kluge, svæðisstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Evrópu, kom í heimsókn til Kænugarðs fyrr í vikunni. Þá var hitinn við frostmark. Kluge sagði að sér litist ekki á blikuna því senn ætti frostið eftir að fara niður í tuttugu gráður.

Hann bætti við að líf milljóna landsmanna væri í hættu í vetrarkuldanum vegna rafmagnsleysis og skorts á nauðsynjum. Þá sagðist hann vera bæði hryggur og reiður yfir árásum á sjúkrahús og heilsugæslustöðvar í Úkraínu. Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni hefðu borist upplýsingar um yfir sjö hundruð árásir á heilbrigðisstofnanir. Þetta sagði hann skýrt brot á alþjóðalögum. Þær ættu aldrei að vera skotmark.

Stöðugt unnið að lagfæringum

Stjórnvöld í Kænugarði greindu frá því í gær að Rússar hefðu skotið um það bil sjötíu stýriflaugum á skotmörk í Úkraínu sólarhringinn á undan. Einnig var drónum beitt við árásirnar. Þær urðu tíu að bana og fimmtíu særðust. Að sögn fréttaritara BBC í borginni eru starfsmenn úkraínska landsnetsins varla byrjaðir á að gera við það sem skemmdist í gær. Þeir eru enn önnum kafnir við að lagfæra það sem Rússar eyðilögðu í síðustu viku.

Haft er eftir Vitali Klitchko, borgarstjóra í Kænugarði, að borgarstarfsmönnum hafi tekist í dag að lagfæra vatnsveituna á nokkrum stöðum. Íbúar í nokkrum hverfum hafi því aðgang að rennandi vatni á ný.

Árásin í gær var sú fimmta frá tíunda október sem Rússar gera á vatns- og raforkukerfið í Úkraínu. Sjálfir neita þeir að hafa verið að verki. Úkraínsk og erlend flugskeyti hafi verið notuð við ódæðisverkin.

Stríðsglæpir, segir Evrópusambandið

Utanríkisráðherrar G7 ríkjanna ætla að hittast í næstu viku. Þjóðverjar eru í forsvari fyrir hópinn um þessar mundir. Annalena Baerbock utanríkisráðherra sagði að árásir á úkraínsku innviðina yrðu á dagskrá og með hvaða hætti unnt væri að veita þjóðinni aðstoð við lagfæringar.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, gerði ástandið í Úkraínu að umtalsefni á fundi með fréttamönnum í Haltia í Finnlandi í dag. Hún sagði meðal annars að vegna fruntalegra árása Vladimírs Pútíns á lífæðar samfélagsins þyrfti fjöldi fólks að eyða vetrinum í rafmagnsleysi og á mörgum stöðum án rennandi vatns. Af hans sökum væru ung börn, foreldrar þeirra, afar og ömmur að frjósa úr kulda í myrkrinu. „Evrópusambandið fordæmir þessar árásir sem eru ekkert annað en stríðsglæpir,“ sagði hún og bætti við að hún hefði trú á að Úkraínumenn ættu eftir að sigrast á erfiðleikunum. Þjóðin væri sterk og hún hefði réttlætið með sér.

Einnig kvaðst Ursula von der Leyen geta tilkynnt að Evrópusambandið væri í óðaönn að undirbúa níunda hluta refsiaðgerðanna sem Rússar eru beittir vegna innrásarinnar í Úkraínu. Þessar aðgerðir sagði hún að ættu eftir að bíta á efnahagssviðinu. Þá væri hún sannfærð um að sambandið ætti áður en langt um líður eftir að setja verðþak á rússneska olíu í samvinnu við G7 ríkin og önnur samtök.

Talsmaður Pútíns með lausnina

Erfiðleikar úkraínsks almennings bárust í tal á fréttamannafundi Dmitrys Peskovs, talsmanns rússnesku stjórnarinnar, í Moskvu í dag. Hann var spurður hvort árásir á lífæðar samfélagsins samrýmdust hinum sértæku hernaðaraðgerðum Pútíns forseta í Úkraínu. Peskov svaraði að það væri á valdi stjórnvalda í Kænugarði að binda enda á erfiðleika þjóðarinnar. Þau þyrftu einungis að fallast á kröfur Rússa.