Heimsglugginn: Kosningar um réttindi hinsegin fólks

Mynd: Markús Þ. Þórhallsson / Markús Þ. Þórhallsson
Kosningar verða í Færeyjum 8. desember. Stjórnin missti meirihluta eftir að lögmaður, sem er forsætisráðherra Færeyja, rak Jenis av Rana úr stjórninni vegna andstöðu hans við aukin réttindi samkynhneigðra. Miðflokkur Jenis av Rana hætti þá stuðningi við stjórnina og ekki tókst að mynda nýjan meirihluta.

Færeyjar í Heimsglugga Morgunvaktarinnar

Stjórnmál í Færeyjum snúast bæði um hefðbundin hægri-vinstri málefni og afstöðu til sjálfstæðis landsins. Nú bætist við þriðja víddin sem eru réttindi hinsegin fólks. Hjálmar Árnason, sem á ættir að rekja til Færeyja og fylgist mjög vel með stjórnmálum og mannlífi þar, segir að kristin trú standi djúpum rótum í eyjunum og Jenis av Rana og Miðflokkurinn skilji Biblíuna þannig að hjónaband geti bara verið samband karls og konu. Miðflokkurinn hefur því verið andvígur auknum réttindum samkynhneigðra.

Fimm þúsund í Gleðigöngu

Afstaða almennings er að breytast, einkum yngra fólks. Hjálmar nefnir að fimm þúsund, tíu prósent þjóðarinnar, hafi tekið þátt í Gleðigöngunni í ár og mikil stemming hafi verið í Þórshöfn þann dag. Engu að síður bendi könnun til þess að Miðflokkurinn bæti við sig manni í kosningunum.

Hrun Fólkaflokksins

Fylgisaukning Miðflokksins er að hluta vegna mikils samdráttar í stuðningi við Fólkaflokkinn, sem er systurflokkur Sjálfstæðisflokksins á Íslandi. Miklar deilur hafa verið innan flokksins og ekki batnaði ástandið þegar formaðurinn Jørgen Niclasen þurfti að segja af sér eftir að hafa verið staðinn að ölvunarakstri. Hjálmar segir að fólk úr frjálslyndari armi flokksins hafi sagt skilið við hann, þannig hafi Annika Olsen gengið til liðs við Þjóðveldið, sem er systurflokkur Vinstri grænna á Íslandi.

Eitt kjördæmi

Kosningakerfið í Færeyjum er öðru vísi en á Ísland, landið er eitt kjördæmi og kjósendur geta kosið einstaka frambjóðendur og ræðst röð þingmanna af hversu mörg slík persónuleg atkvæði þeir fá. Þá er talið á hverjum kjörstað og úrslitin liggja því fyrir miklu fyrr en raunin er í kosningum á Íslandi þar sem safna þar saman öllum á einn talningarstað atkvæðum í hverju kjördæmi.

Spáir stjórn Jafnaðarmanna og Sambandsflokks

Hjálmar Árnason segir að Sambandsflokkurinn undir stjórn Bárðar á Steig Nielsens virðist ætla að halda fylgi sínu og Jafnaðarmenn virðist í mikilli sókn. Ekki sé því ólíklegt að þessir flokkar myndi nýja samsteypustjórn eftir kosningar.

Skotar mega ekki efna til þjóðaratkvæðagreiðslu

Í upphafi Heimsgluggans ræddu Björn Þór Sigbjörnsson og Bogi Ágústsson stöðuna í sjálfstæðismálum Skota eftir að hæstiréttur Bretlands úrskurðaði að skoska stjórnin mætti ekki efna til annarrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði nema með leyfi bresku stjórnarinnar.