Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Verðbólgan erfiðari viðureignar en búist var við

Ásgeir Jónsson
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - Fréttir
Seðlabankastjóri vill ekki skemma jólahátíðina fyrir fólki en biður það samt um að halda fastar í veskið. Hann segir verðbólguna erfiðari viðureignar en búist var við. Stýrivextir Seðlabankans eru nú sex prósent eftir að þeir voru hækkaðir um núll komma tuttugu og fimm prósentustig í morgun.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagðist við síðustu hækkun vona að það hafi verið sú síðasta, en það hefur ekki gengið eftir. Þetta er tíunda hækkunin í röð.

„Þetta er að ganga hægar en við hefðum vonað og við erum líka að sjá að gengið hefur aðeins veikst sem stafar af viðskiptahalla. Þetta verkefni er bara erfiðara en við höfðum gert ráð fyrir.“ 

Kallar eftir að fólk haldi fastar í veskið

Þá sé mun meiri neysla í samfélaginu en gert var ráð fyrir. Almenningur búi enn að sparifé frá því í heimsfaraldrinum og hafi því efni á að eyða. Með þessu kallar Seðlabankinn enn á ný eftir því að almenningur haldi að sér höndum.

„Við ætlum ekki að skemma jólahátíðina fyrir fólki, en auðvitað viljum við sjá að það fari að hægja á.“ 

Ásgeir segist þó sjá árangur í því að hagsveifla sé að hníga og verðbólga hafi náð hámarki. Hún var mest níu komma níu prósent í sumar en er nú níu komma fjögur prósent. Hún hefur aukist aftur eftir að það dró úr henni í haust. 

 Bankinn á að sýna að hann hafi tök á verðbólgu

Hann telur að í ljósi kjaraviðræðna sé það á ábyrgð Seðlabankans að sýna fram á að hann hafi tök á verðbólgunni. 

„Þannig að þegar þau semja um laun á næstu árum treysti vinnumarkaðurinn því að verðbólga haldi ekki áfram, þannig það þurfi ekki að hækka launin til að bæta upp fyrir hana. Við vonum að það gangi eftir.“ 

elsamd's picture
Elsa María Guðlaugs Drífudóttir