„Útilokað“ að aftur verði selt í lokuðu útboði

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 23. nóvember 2022, vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu hluta ríkisins í Íslandsbanka.
 Mynd: Alþingi
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, situr fyrir svörum um skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á Íslandsbanka á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Fundurinn hófst klukkan 09:45 og er í beinu streymi. Hægt er að fylgjast með fundinum í spilaranum hér að ofan. Auk Bjarna verða á fundinum þeir Haraldur Steinþórsson lögfræðingur og Sigurður H. Helgason skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Hingað til hefur einna hæst borið á fundinum, að fjármálaráðherra segir útilokað að ríkisstjórnin selji aftur eignarhluti ríkisins í bönkum með lokuðu útboði. Það segir hann vegna þess hve Ísland er lítið samfélag og erfitt að tryggja jafnræði meðal kaupenda. 

„Ég held að það sé útilokað að þessi ríkisstjórn vilji fara aftur tilboðsleiðina við sölu á eignarhlut í Íslandsbanka vegna gallanna sem fylgja því, ekki síst í svona smáu samfélagi eins og við búum í. Ég er þar ekki síst að vísa til þátta eins og þess jafnræðis sem við vorum að ræða hérna áðan. Það getur verið flókið að tryggja fullt jafnræði. En þó vil ég segja að þetta tilboðsfyrirkomulag hefur ýmsa augljósa kosti,“ sagði Bjarni.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV