Tvöfalt meiri hlýnun í Svíþjóð en á heimsvísu

The sun rises near power lines in Frankfurt, Germany, Wednesday, July 24, 2019. A heatwave struck large parts of Europe. (AP Photo/Michael Probst)
 Mynd: AP
Meðalhiti í Svíþjóð hefur hækkað um nær tvær gráður á Celsius frá því sem hann var á seinni hluta nítjándu aldar, og þótt úrkoma hafi aukist síðustu áratugi gætir snjóa að meðaltali rúmlega tveimur vikum skemur á ári. Þetta kemur fram í viðamikilli rannsókn sænsku veðurstofunnar, sem kynnt var í gær.

Á heimasíðu veðurstofunnar segir að rannsóknin sýni að meðalhiti í Svíþjóð hafi verið 1,9 gráðum hærri á árunum 1991 til 2020 en tímabilið 1861 - 1890. Þetta er um það bil tvöfalt meiri hlýnun en varð á heimsvísu á sama tíma.

Loftslagsfræðingurinn Semjon Schimanke, sem fór fyrir rannsókninni, segir að veðurstofan hafi aldrei áður unnið jafn umfangsmikla rannsókn og þessa, og aldrei horft til jafn margra breytna og vísa sem varða loftslagsbreyingar og nú. „Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir það með skýrum hætti að sænska loftslagið hefur breyst,“ segir Schimanke.

Erik Kjellström, prófessor í loftslagsfræðum, tekur í sama streng og segir „hlýrra og úrkomusamara loftslag í Svíþjóð“ haldast í hendur við þá hnattrænu hlýnun sem sýnt hafi verið fram á að rekja megi til athafna mannsins.

Meiri úrkoma og sólskin, minni snjór en vindurinn sjálfum sér líkur

Og það er horft til fleiri veðurþátta en hita í þessari rannsókn og farið mislangt aftur í tímann í hinum ólíku þáttum. Þróun úrkomu er skoðuð frá 1930 og í ljós kemur að hún hefur aukist úr um 600 mm í um 700 mm á ári frá aldamótum. 

Hins vegar hefur meðalfjölda daga með snjóþekju fækkað um 16 á ári frá árinu 1950, og þrátt fyrir vaxandi úrkomu hefur sólskin aukist um um það bil 10 prósent frá miðjum níunda áratug síðustu aldar. Líklegasta skýringin á þessu síðastnefnda er sögð samspil minnkandi loftmengunar og breytinga á skýjafari. Þá er talið líklegt að þetta aukasólskin hafi sitt að segja um hlýnunina.

Eini megin-veðurþátturinn sem lítið sem ekkert hefur breyst í grundvallaratriðum á síðustu áratugum í Svíaveldi, samkvæmt þessari rannsókn, er vindurinn. Hann er samur við sig.