Strætó bs. óskar eftir auknum fjárveitingum

23.11.2022 - 11:55
Mynd með færslu
 Mynd: STRÆTÓ
Framkvæmdastjóri Strætó bs. segir að það séu vonbrigði að ekki sé gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til fyrirtækisins í frumvarpi til fjáraukalaga. Fyrirtækið hafi orðið fyrir miklum skakkaföllum í kórónuveirufaraldrinum.

Þetta kemur fram í umsögn Strætó bs. um frumvarp til fjáraukalaga sem fjárlaganefnd Alþingis hefur til umfjöllunar.

Strætó þurfti að hækka gjaldskrá um allt að 12,5 prósent í síðasta mánuði til að bregðast við miklu tekjutapi í faraldrinum og auknum kostnaði. Verð á stökum farmiða fór úr 490 krónum í 550 krónur.

Fram kemur í umsögn Strætó bs. að fyrirtækið hafi ákveðið að skerða þjónustu sem minnst í faraldrinum til þess að mikilvægir framlínustarfsmenn ættu þess kost að komast í vinnu. Áætlað er að fyrirtækið hafi tapað allt að 2 milljörðum króna á árunum 2020 til 2022.

Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó bs. segir að sveitarfélögin sem standa að fyrirtækinu hafi komið með um einn milljarð í aukin framlög til að bregðast við þessari stöðu. Stjórnvöld hafi sett 120 milljónir í aukin framlög en meira þurfi til.

„Það olli því miklum vonbrigðum að sjá ekki í framlögðu frumvarpi til fjáraukalaga neitt um aukin styrk til þess að koma til móts við tekjufall Strætó á Covid tímum, þar sem klárlega allt var gert til að halda upp sem mestri þjónustu til að mikilvægir framlínustarfsmenn ættu þess kost að komast til vinnu og sinna þeim mikilvægu störfum sem þurfti á Covid tímanum,“ segir í umsögninni.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV