Stefnir í harðar aðgerðir og viðræðuslit

23.11.2022 - 17:40
Þing así 10 október 2022
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, er afar ósáttur við ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að hækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentustig. Hann segir allt stefna í að viðræðum verði slitið og gripið til harðra aðgerða.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Það er ekki hægt að segja annað og er eiginlega óskiljanleg viðbrögð Seðlabankans á meðan við erum í miðju kafi á mjög viðkvæmum stað í kjaraviðræðum. Við vorum komin á ákveðinn stað að vinna með ákveðnar hugmyndir sem áttu að tala inn í ákveðinn stöðugleika með það að markmiði að ná niður verðbólgu og vöxtum. Þessar hugmyndir eru eiginlega farnar út af borðinu. Það er búið að sópa þeim út af borði og það gerði seðlabankastjóri núna í morgun,“ segir Ragnar Þór. 

Hlé var gert á viðræðunum í morgun og samninganefndir kallaðar saman til fundar þar sem framhaldið var rætt. „Mér sýnist allt stefna í það að hér verði viðræðum slitið og við förum að ræða aðgerðir.“ Hann segir að ákvörðun Seðlabankans verði svarað við kjarasamningaborðið og gefur í skyn harðar aðgerðir og útilokar ekki verkföll. „Hagnaður fyrirtækjanna á síðasta ári var um 480 milljarður, 480 þúsund milljónir og stefnir í enn betri afkoma núna á þessu ári þannig að það eru allir að græða á stöðunni, verðbólgunni, vaxtastiginu og skilaboðin frá Seðlabankanum og stjórnvöldum að launafólk sýni ábyrgð til að halda hér einhverjum stöðugleika, það er bara ekki að fara að gerast. Verkföll? Þetta er það sem við erum að fara að ræða núna á eftir hver eru okkar næstu skref. Við höfum einn möguleika að setja okkar kostnaðarhækkanir út í okkar verðlag sem eru launin í gegnum launahækkanir og við erum bara að reyna að meta stöðuna vegna þess að seðlabankinn ætlar að standa með fjármagnseigendum og fjármálakerfinu, það hefur hann sýnt og sannað núna held ég í tíunda skipti sem hann hækkar vexti. Þetta verður allt saman gert á kostnað launafólks og almennings í landinu og við þurfum að svara því og það kemur í ljós hvernig þessu verður endanlega svarað og ég held að ég hafi gefið þér ágæta hugmynd um hvert við erum að fara í þessum efnum,“ segir Ragnar Þór.