Sendiráð hvetur Breta líka til að vera á varðbergi

23.11.2022 - 23:34
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RUV
Breska sendiráðið á Íslandi uppfærði í morgun leiðbeiningar til breskra ferðamanna á leið til Reykjavíkur. Þeir eru varaðir við vasaþjófum og andfélagslegri hegðun, sérstaklega í grennd við skemmtistaði í miðbæ Reykjavíkur. Þá eru ferðamenn beðnir um að hafa í huga fréttir af vopnuðum gengjaátökum.

Sendiráðið biður ferðamenn um að vera á varðbergi, gera viðeigandi ráðstafanir og skilja verðmæti ekki eftir á glámbekk. „Ef þú verður var við óvenjulegu hegðun skaltu koma þér í burtu strax og hlýða fyrirmælum lögreglu og annarra yfirvalda.“

Bandaríska sendiráðið hefur einnig beðið landa sína um að vera á varðbergi, forðast mannmergð  og fylgjast vel með íslenskum fjölmiðlum áður en þeir fara niður í miðbæ.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið með aukinn viðbúnað í miðborginni eftir hnífaárásina á Bankastræti Club fyrir tæpri viku.  Sá viðbúnaður verður áfram nú um helgina.

Þá er verið  að kanna hvort eitthvað búi að baki skilaboðum sem deilt hefur verið á samfélagsmiðlum og boðuð eru átök og hefndaraðgerðir.

Ekki hefur komið til þess að fólk sé hvatt til að halda sig fjarri miðborg Reykjavíkur um helgina og ekkert af norrænu sendiráðunum hefur séð ástæðu til að vara sína borgara við næturlífinu í Reykjavík þessa helgi.