Sakar Rússa um að vopnvæða yfirvofandi vetrarhörkur

23.11.2022 - 00:30
epa10317940 President of Ukraine Volodymyr Zelensky participates via telematics during the 68th NATO Parliamentary Assembly in Madrid, Spain, 21 November 2022. NATO Parliamentary Assemblys Annual Session runs in Spains capital from 18 to 21 November 2022.  EPA-EFE/CHEMA MOYA
Zelensky kemur víða við þótt hann yfirgefi sjaldnast Kænugarð. Hér ávarpar hann fund Nato-þingmanna í Madríd á Spáni á mánudag, en á þriðjudag ávarpaði hann meðal annars fund franskra og úkraínskra borgarstjóra í París í gegnum fjarfundabúnað.  Mynd: EPA-EFE - EFE
Með árásum sínum á orkuinnviði Úkraínu freista Rússar þess að vopnvæða yfirvofandi vetrarhörkur og gera þær að eins konar gereyðingarvopnum. Þetta sagði Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti þegar hann ávarpaði fund úkraínskra og franskra borgarstjóra, sem haldinn var í París á þriðjudag.

„Til að lifa þennan vetur og hindra Rússa í að gera kuldann að verkfæri ógnarverka og kúgunar, þá þurfum við mikla hjálp og mikinn búnað,“ sagði forsetinn í ávarpi sínu, og hvatti frönsku borgarstjóranna til að senda ljósavélar, tæki til jarðsprengjuhreinsunar, björgunarbúnað og sjúkragögn til Úkraínu.

Nær helmingur úkraínska orkukerfisins er í lamasessi eftir árásir síðustu vikna og forstjóri stærsta orkufyrirtækis landsins hvetur fólk til að yfirgefa Úkraínu, svo hægt verði að tryggja orku til sjúkrahúsa og annarra nauðsynlegra stofnana samfélagsins.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, varaði við því á mánudag að veturinn framundan geti orðið lífshættulegur fyrir þær milljónir Úkraínumanna, sem búa við rafmagnsleysi og skort á hvorutveggja heitu og köldu vatni. Auk þess eru heimili fjölda fólks ýmist stórskemmd eða rústir einar eftir sprengjuárásir innrásarhersins.