Netárás á tölvukerfi Evrópuþingsins

23.11.2022 - 17:53
epa10321854 Flags in front of the European Parliament building in Strasbourg, France, 23 November 2022.  EPA-EFE/JULIEN WARNAND
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Rússneskir tölvuhakkarar lýsa yfir ábyrgð á árás sem gerð var á tölvukerfi Evrópuþingsins í morgun, nokkrum klukkustundum eftir að þingið samþykkti ályktun þar sem Rússlandi var lýst sem hryðjuverkaríki.

 

Talsmenn Evrópuþingsins segja að árásin sé svokölluð DDOS-árás. Þá er stórfelldri netumferð beint um netþjóna fórnarlambsins til þess að lama kerfin. Heimildarmaður fréttaveitunnar AFP innan þingsins lýsir árásinni sem þeirri háþróuðustu sem sést hefur.

Vefsíða Evrópuþingsins hefur legið niðri frá því skömmu eftir hádegi en ekkert bendir til þess að gögn hafi tapast. DDOS-árásum er aðeins ætlað að valda usla.

Hakkarahópurinn Killnet hefur lýst árásinni á hendur sér. Hann er hliðhollur Rússum og hefur staðið fyrir fjölda netárása á stofnanir víða um Vesturlönd; Bandaríkjaþing, tékkneska ríkið og Eurovision-söngvakeppnin hafa áður orðið fyrir barðinu á hópnum.

Netárásin var gerð rétt eftir að þingmenn á Evrópuþinginu samþykktu ályktun þar sem rússnesk stjórnvöld voru sögð styðja við hryðjuverkastarfsemi.

 

alexanderk's picture
Alexander Kristjánsson