„Mátti heyra saumnál detta“ þegar stýrivextir hækkuðu

23.11.2022 - 20:50
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Heyra mátti saumnál detta á samningafundi aðila vinnumarkaðarins og verkalýðshreyfingarinnar í morgun þegar seðlabankinn tilkynnti að stýrivextir yrði hækkaðir. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ákvörðun bankans hafi valdið algjörri upplausn og verið ákaflega illa tímasett.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði, ekki hægt að segja annað. Og eiginlega óskiljanleg viðbrögð Seðlabanka Íslands á meðan við erum í miðju kafi í á mjög viðkvæmum stað í kjaraviðræðum,“ sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR,  eftir að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands tilkynnti að stýrivextir yrðu hækkaðir um 0,25 prósentustig. 

Seðlabankastjóri sagði eftir fund í morgun að áfram væri mikill þróttur í verðbólgunni. Verkefnið væri erfiðara en gert hefði verið ráð fyrir og almenningur þyrfti að halda að sér höndum. „Við ætlum ekki að skemma jólahátíðina fyrir fólki, en auðvitað viljum við sjá að það fari að hægja á.“

Samtök atvinnulífsins eru líkt og verkalýðshreyfingin ósátt við ákvörðun seðlabankans. „Hún veldur mér sárum vonbrigðum, rökstuðningurinn er þunnur og ákvörðunin illa tímasett þar sem hún kemur á viðkvæmum tíma í kjaraviðræðunum,“ sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, í sjónvarpsfréttum RÚV.

Halldór sagðist hafa bundið vonir við að peningastefnunefndin myndi sitja á sér því nú væru kjaraviðræður komnar í frost.  „Það var mjög þungur undirtónn í viðræðum dagsins og það mátti heyra saumnál detta.“

Ákvörðunin væri illa ígrunduð þar sem hún ynni gegn markmiðum sínum. „Seðlabankanum mátti vera ljóst hver staðan væri í kjaraviðræðum.“

Halldór hefði frekar kosið að seðlabankinn héldi stýrivöxtum óbreyttum til að gefa aðilum vinnumarkaðarins svigrúm og gæti síðan haldið auka-stýrivaxtafund. „Ég heyri mjög herskáan tón sem er jafnvel með smá hljóðkút.“