Grótta vann langþráðan sigur

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Grótta vann langþráðan sigur

23.11.2022 - 21:59
Grótta og Haukar mættust í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Um var að ræða leik í áttundu umferð sem frestað var vegna þátttöku Hauka í Evrópukeppni og fór hann fram út á Seltjarnarnesi. Grótta vann langþráðan sigur í þessum leik 25-24 er lokamarkið kom þegar sex sekúndur voru eftir af leiktímanum.

Einn leikur var spilaður í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld þegar Grótta tók á móti Haukum. Haukar sem unnu tíu marka sigur á ÍBV í síðustu umferð vonuðust til að vera komnir á flug. Grótta kippti hins vegar Haukum úr skýjunum og komst sex mörkum yfir í 11-5 eftir um átján mínútna leik.

Grótta gat með sigri komist upp fyrir Hauka í deildinni en liðin voru í níunda og tíunda sæti fyrir leikinn. Haukar náðu að minnka muninn niður í tvö mörk en Grótta hafði þriggja marka forskot í hálfleik, 14-11. Áfram höfðu Seltirningar frumkvæðið í seinni hálfleiknum en Haukar tóku þó að þjarma að þeim og jöfnuðu metin í 21-21 og komust svo tveimur mörkum yfir í 24-22 þegar sjö mínútur voru eftir. En þar með kom stopp á mörk Hauka á meðan Grótta skoraði þrjú síðustu mörk leiksins.

Ágúst Emil grétarsson skoraði síðasta mark leiksins og tryggði Gróttu eins marks sigur. Úrslitin 25-24 fyrir Gróttu.