Gengur vonum framar að útvega flóttafólki húsnæði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fleira flóttafólk hefur komið hingað til lands það sem af er ári en spár gerðu ráð fyrir. Flestir koma frá Úkraínu og aðgerðarstjóri segir að nokkuð vel gangi að finna húsnæði. 

Það sem af er ári hafa 2.084 flóttamenn komið hingað til lands frá Úkraínu. Heildarfjöldi þeirra sem hafa komið hingað í leit að vernd á árinu er 3.717. Gylfi Þór Þorsteinsson, aðgerðarstjóri vegna móttöku flóttafólks, segir að upphaflega hafi verið búist við um fimmtán hundruð manns, tvö þúsund að hámarki, frá Úkraínu. Spár hafi þó verið á reiki. Nú séum við komin yfir það mark og útlit er fyrir enn fleiri.

„Síðasta sólarhringinn komu til dæmis tólf frá Úkraínu, en sextán í heildina. Þannig að meiri hlutinn er enn frá Úkraínu, sem er að koma. Þótt örlítið hafi dregið úr komu Úkraínubúa undanfarnar vikur, þá er eitthvað aðeins að koma kippur í það aftur.“

Húsnæðismál ganga vonum framar

Hann segir áætlanir um fjölda síbreytilegar; fólkið heldur áfram að koma í meiri mæli en búist var við. Ekki bara hingað til Íslands, heldur úti um allan heim. Gylfi segir það þó hafa gengið vonum framar að finna húsnæði fyrir fólkið. 

„Það er enginn húsnæðislaus í rauninni, af þeim sem hingað hefur komið af þessum 3.700.“

Hann segir að vissulega hafi ekki allt gengið sem skyldi, vegna þessarar miklu fjölgunar á skömmum tíma. Mun fleiri hafi komið hingað heldur en verið hefur undanfarna áratugi.

„Þannig að auðvitað þurftum við að hlaupa ansi hratt til þess að tryggja öllum húsnæði. Það hefur tekist, og núna eftir að Reykjavíkurborg skrifaði undir samning um samræmda móttöku, mjög myndarlegan og flottan samning, þá eru vonir til þess að þetta verði enn þægilegra fyrir okkur.“

Fólk ekki lengi í húsnæði frá ríkinu

Gylfi segir ríki og sveitarfélög þurfa að leggjast á eitt. Húsnæðið sé til staðar, það þurfi bara að finna það og standsetja. Hann bendir þó á að fólk sem hingað komi í leit að vernd sé aðeins í húsnæði á vegum hins opinbera í átta vikur eftir að það fær vernd. Eftir það er fólk á eigin vegum eða upp á sveitarfélögin komin. 

„Mér sýnist nú að flestir séu bara á eigin vegum og útvegi sér húsnæði sjálfir. Allavega svona flestir af þeim sem hafa verið að koma frá Úkraínu.“

Gylfi tekur fram að verð á leigumarkaði sé hátt hér á landi og ekki um sérlega auðugan garð að gresja á höfuðborgarsvæðinu. Fólk hafi sest að víða úti á landi og það hafi gengið vel.  

„Fólkinu hefur gengið bara mjög vel að fá vinnu líka, þannig að hingað er gott að koma.“