Aldarminning Jóns Sigurbjörnssonar bassasöngvara

Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV

Aldarminning Jóns Sigurbjörnssonar bassasöngvara

23.11.2022 - 15:36

Höfundar

Á þessu ári eru 100 ár frá fæðingu söngvarans Jóns Sigurbjörnssonar. Jón var einn besti bassasöngvari Íslands á 20. öld og einnig lærður leikari, fór með mörg hlutverk bæði hjá Þjóðleikhúsinu og Leikfélagi Reykjavíkur auk þess sem hann leikstýrði ófáum verkum.

Jón Sigurbjörnsson fæddist á Ölvaldsstöðum í Borgarfirði 1. nóv. 1922. Hann hóf nám við Tónlistarskólann í Reykjavík 1943 og leiklistarnám í skóla Lárusar Pálssonar ári síðar. Haustið 1946 ferðaðist Jón til Bandaríkjanna og stundaði í tvö ár leiklistarnám við American Academy of Dramatic Arts auk þess að hann lagði stund á söng. Fyrsta hlutverk Jóns á sviði í Reykjavík var Hóras í leikritinu „Hamlet“ eftir Shakespeare 1949, en það var í fyrsta skipti sem leikritið var sett upp hér á landi. Fimm árum seinna var leikritið hljóðritað og hefur því varðveist hljóðritun af Jóni í hlutverkinu.

Óperusöngur í þrjá áratugi

Söngnám stundaði Jón í New York 1949-1950, síðar í Mílanó og loks í Róm þar sem kennari hans var Paolo Silveri. Einnig fékk Jón tilsögn hér heima hjá Sigurði Demetz Franzsyni. Meðal óperuhlutverka Jóns voru Sarastró í „Töfraflautunni“ eftir Mozart í Þjóðleikhúsinu 1956 og Basilíó í „Rakaranum í Sevilla“ eftir Rossini 1958, en Jón átti síðar eftir að syngja sama hlutverk hjá Íslensku óperunni 1984. Árið 1974 söng hann hlutverk Þryms í fyrstu íslensku óperunni, „Þrymskviðu“ eftir Jón Ásgeirsson sem sett var upp hjá Þjóðleikhúsinu, og árið eftir leikstýrði Jón Sigurbjörnsson þar óperunni „Carmen“ eftir Bizet og söng hlutverk Escamillos. Hann fór einnig með hlutverk í óperunni „Silkitrommunni“ eftir Atla Heimi Sveinsson 1982.

Lék Skugga-Svein þrisvar

Jón varð formaður Leikfélags Reykjavíkur 1956, starfaði við Þjóðleikhúsið frá 1960 til 1966, en eftir það hjá Leikfélagi Reykjavíkur til ársins 1992. Af frægum hlutverkum Jóns má nefna Skugga-Svein í samnefndu leikriti Matthíasar Jochumssonar. Hann lék hlutverkið 1961 hjá Þjóðleikhúsinu, 1972 hjá Leikfélagi Reykjavíkur og í útvarpshljóðritun 1974. Dimm rödd Jóns naut sín vel í hlutverki þessa útlagaforingja. Um túlkun hans á hlutverkinu 1972 skrifaði gagnrýnandinn Ólafur Jónsson í Vísi:

En einnig Skuggi kemur hér fram í nýrri mynd. Jón gerir hvorki meira né minna en skila skapgerðarkönnun stigamannsins, sem orðinn er aldurhniginn, innanveikur og bilaður fyrir brjósti, ekkert eftir af honum nema skapið og raustin ramma — Skugga-Sveinn verður allt að því tragískur með þessum hætti.

Bangsapabbi í „Dýrunum í Hálsaskógi“

Árið 1962 lék Jón annað hlutverk þar sem dimm rödd kom í góðar þarfir. Það hlutverk var gjörólíkt Skugga-Sveini og þó eiga persónurnar það sameiginlegt að vera foringjar, hvor á sinn hátt. Þetta var bangsapabbi í „Dýrunum í Hálsaskógi“ eftir Thorbjörn Egner. Leikritið var frumsýnt hjá Þjóðleikhúsinu 1962, en hljóðritað og gefið út á plötu fjórum árum síðar og hafa því margar kynslóðir íslenskra barna kynnst Jóni Sigurbjörnssyni sem bangsapabba. Hann stjórnar röggsamlega hinum fræga fundi í Hálsaskógi þar sem ákveðið er að „öll dýrin í skóginum“ eigi að „vera vinir“.

Fékk heiðursverðlaun Grímunnar

Árið 1992 varð Jón sjötugur og hætti þá að leika í leiksýningum þótt hann léki í nokkrum kvikmyndum eftir þetta. Hann fluttist að bænum Helgastöðum í Biskupstungum og sneri sér að áhugamáli sem hann hafði sinnt í hjáverkum frá árinu 1966: að rækta hesta, en Jón var mikill hestamaður. Í nokkur ár kenndi hann söng í Tónlistarskólanum á Hellu. Árið 2005 var hann sæmdur heiðursverðlaunum Grímunnar, 83ja ára að aldri. Hann lést, 99 ára gamall, 30. nóv. 2021.

Í þættinum „Á tónsviðinu“ fim. 24. nóv. kl. 14.03 verður fjallað um Jón Sigurbjörnsson og fluttar hljóðritanir með söng hans og leik.