Vill fjölga læknanemum og efla sérnám

22.11.2022 - 13:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Heilbrigðisráðherra segir að styrkja þurfi enn frekar sérnám lækna hér á landi, fjölga þurfi læknanemum og liðka eins og unnt er fyrir starfsleyfisveitingum lækna með menntun erlendis frá. Allt sé þetta liður í að bregðast við læknaskorti og mönnunarvanda í heilbrigðisþjónustu.

Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur þingmanni Viðreisnar um læknaskort. Landsráð um menntun og mönnun verður ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana ráðherra á sviði mönnunar og menntunar í heilbrigðisþjónustu.

Beiðni heilbrigðisráðuneytisins um að fjölga læknanemum hefur verið komið á framfæri við Háskóla Íslands ásamt rökstuðningi og er vinna hafin innan háskólans í samráði við Landspítalann. Þá standi til að efla sérnám í læknisfræði hér á landi og leggja á áherslu á að einfalda umsóknarferli heilbrigðisstarfsfólks frá ríkjum utan EES og Sviss um starfsleyfi hér á landi og sú vinna sé langt komin.  

Ráðherra segir jafnframt í svari sínu að til að halda í við fólksfjölgun í landinu verði nýliðun lækna að aukast, fjöldi nema í læknisfræði erlendis og með eflingu sérnáms hér á landi aukist líkur á að þeir nemar skili sér inn í íslenskt heilbrigðiskerfi til starfa.

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV