Titringur í Mýrdalsjökli í kvöld

22.11.2022 - 20:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þrír nokkuð snarpir skjálftar mældust í Mýrdalsjökli í kringum klukkan átta í kvöld. Fyrsti skjálftinn varð klukkan 19:55 og mældist 3,9 að stærð. Klukkan 20:07 varð skjálfti af stærðinni 3,8 og fjórum mínútum síðar varð skjálfti af stærðinni 3,5. Upptök skjálftanna eru austarlega í Kötluöskju.

Auk þessara þriggja skjálfta mældust tveir til viðbótar af stærðinni 2,5 og einn af stærðinni 2,8 á milli klukkan 19:55 og 20:11. Eftir klukkan 20:30 hefur ekki verið vart við virkni í Mýrdalsjökli. Skjálftarnir eru grunnir að sögn náttúruvársérfræðinga hjá Veðurstofu Íslands og fundust stærstu skjálftarnir í Skaftártungum.

Skjálftar eru algengir í Kötluöskjunni. Þetta eru stærstu skjálftar sem hafa mælst þar síðan í júlí. Töluverð skjálftavirkni hefur verið í Mýrdalsjökli í ár miðað við árin á undan, en þó minni en virknin á árunum 2016 og 2017. 

Fréttin var uppfærð klukkan 22:34.