Þýska sambandið ætlar að stefna FIFA

Mynd með færslu
 Mynd: -

Þýska sambandið ætlar að stefna FIFA

22.11.2022 - 16:17
Þýska verslunarkeðjan Rewe ákvað í dag að rifta auglýsingasamningi sínum við þýska knattspyrnusambandið, fyrir að berjast ekki gegn banni FIFA við að bera fyrirliðaband til stuðnings hinsegin fólks. Þýska sambandið hyggst kæra ákvörðun FIFA.

Steffen Simon, starfsmaður þýska knattspyrnusambandsins, segir sambandið ætla að leita réttar síns vegna ákvörðunar FIFA. Alþjóðasambandið hafi komið í veg fyrir að Þjóðverjar geti sýnt  merki til stuðnings fjölbreytileika og mannréttinda. Það hafi sambandið gert samhliða því að hóta refsingum, án þess að útlista þær nákvæmlega.

Samkvæmt þýska blaðinu Bild ætlar þýska sambandið að óska eftir flýtimeðferð, sem þýðir að málið yrði tekið fyrir innan tveggja sólarhringa. Með málsókninni vonast Þjóðverjar til þess að geta borið fyrirliðabandið án refsingar, þangað til dæmt verður í málinu.

Hætta sölu á fótboltaspjöldum

Lionel Souque, stjórnandi Rewe, segir í viðtali við þýska dagblaðið Tagesspiegel að keðjan standi með fjölbreytileikanum, og fótboltinn sé einnig fjölbreyttur. „Hneykslanleg ákvörðun FIFA er algjörlega óásættanleg fyrir mig sem stjórnanda fjölbreytilegs fyrirtækis og fótboltaunnanda.

Fótboltaspjöld með myndum af leikmönnum HM í Katar og safnmöppur undir spilin voru til sölu í verslunum Rewe fram að móti. Í fréttatilkynningu fyrirtækisins segir að nú geti viðskiptavinir fengið þetta gefins. Hagnaðurinn af spjöldum og möppum sem seldust verður gefinn til góðgerðarmála.

Tengdar fréttir

Fótbolti

FIFA bannar ást Belga

Fótbolti

Infantino: Hræsni í gagnrýni á mannréttindi í Katar