Tafir á framleiðslu raforku í nýju kjarnorkuveri Finna

22.11.2022 - 01:36
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Ekki þykir líklegt að regluleg raforkuframleiðsla þriðja kjarnaofns Olkiluoto-versins í vesturhluta Finnlands hefjist í fyrr en undir lok janúar. Verkefnið hefur tafist um árabil og í síðasta mánuði uppgötvuðust skemmdir í verinu.

Kjarnorkuverið er á eyjunni Olkiluoto í Helsingjabotni. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu Teollisuuden Voima eða TVO sem á og rekur verið kemur fram að rannsókn standi yfir á þeim skemmdum sem urðu á dælum fyrir inntaksvatn, sem vart varð í október, og að hún geti varað nokkrar vikur til viðbótar.

Því sé erfitt að meta hve lengi starfsemi getur tafist. Þó er vonast til að unnt verði að hefja raforkuframleiðslu fyrir miðjan desember en að regluleg framleiðsla verði ekki tryggð fyrr en undir janúarlok hið fyrsta. 

Bygging kjarnaofnsins hófst fyrir nítján árum en ætlunin var að tengja hann raforkukerfi Finnlands í desember. Vetur er að skella á og í ljósi þess að dregið hefur úr orkukaupum Finna frá Rússlandi þykir þeim brýnt að Olkiluoto-verið nái fullum afköstum. 

Þessi þriðji kjarnaofn versins er sá öflugasti í Evrópu og sá þriðji voldugasti í heimi. Ofninn framleiðir um 20 prósent þeirrar raforku sem Finnar nota og verið allt um 40 af hundraði.