Stöðva kæfisvefnsgreiningar á SAk vegna fjárskorts

default
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Ekki verða gerðar fleiri kæfisvefnsgreiningar á Sjúkrahúsinu á Akureyri í ár nema nýir samningar náist við Sjúkratryggingar Íslands. Forstjóri sjúkrahússins segir stöðuna óásættanlega.

Langur biðlisti kemur til með að lengjast meira

Gildandi samningur við Sjúkratryggingar Íslands um fjölda rannsókna dugir ekki til að anna aukinni eftirspurn eftir greiningu kæfisvefns. Hildigunnur Svavarsdóttir, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, segir það einkar slæmt í ljósi þess hve langir biðlistarnir þegar eru. Áður en rannsóknir voru stöðvaðar var biðtíminn á bilinu sex til átta vikur. Biðin kemur nú til með að lengjast.

„Við erum að óska eftir því að Sjúkratryggingar Íslands endurskoði þessa samninga en við höfum þá heimild til að gera fleiri rannsóknir því að þetta byggir á því að við höfum þannig samning við Sjúkratryggingar að bak við hverja rannsókn fylgi fjármagn og við erum bara komin í toppinn á því og þurfum endurnýjun á þessum samning til þess að þetta geti gengið upp. Sannarlega viljum við leggja okkar lóð á vogarskálarnar með það að minnka biðlistana hvað þessar rannsóknir varða á landsvísu.“

Óásættanlegt og ömurlegt

Svör hafa ekki borist frá Sjúkratryggingum Íslands en Hildigunnur segir að málinu verði fylgt fast eftir.

„Mér finnst þetta náttúrulega bara óásættanlegt að við getum ekki veitt þessa rannsókn í því samfélagi sem við búum í og með þann sérhæfða hóp heilbrigðisstarfsmanna sem vinnur að þessum greiningum og náttúrlega nýtum þessi tæki sem við eigum hér til þess að stunda þessar rannsóknir. Þetta bara er mjög stór liður í því að við getum veitt þá þjónustu sem þörf er fyrir og mér finnst bara hálf leiðinlegt og ömurlegt að vita af því að við séum ekki að nýta þann kost sem við höfum til staðar hér á sjúkrahúsinu,“ segir Hildigunnur.