Segir markmiðið ekki að koma Zelensky frá

Mynd: EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO / EPA-EFE/SERGEY DOLZHENKO
Markmið Rússa er ekki að koma Volodymyr Zelensky forseta og úkraínsku ríkisstjórninni frá völdum, hefur ríkismiðillinn Russia Today eftir Dmitry Peskov, talsmanni stjórnvalda í Kreml. Að hans sögn hefur Valdimír Pútín forseti lýst þessu yfir. Talsmaðurinn segist jafnframt vera sannfærður um að Rússar nái markmiðum sínum í Úkraínu, án þess að tilgreina þau nánar.

Sergei Lavrov utanríkisráðherra virðist hafa verið á öndverðum meiði í júlí þegar hann sagði að Rússar vildu hjálpa úkraínsku þjóðinni að losa sig við stjórn Volodymyrs Zelenskys sem væri and-þjóðfélagsleg og skeytti engu um fortíðina. Á Vesturlöndum hefur því jafnframt margoft verið haldið fram að tilgangur Rússa með innrásinni í febrúar hafi meðal annars verið að steypa stjórninni, sem þeir sökuðu um að væri höll undir nýnasisma.

Yfirlýsing til heimabrúks

Sean Bell, fréttaskýrandi Sky sjónvarpsfréttastöðvarinnar um hernaðarleg málefni, segir að lýðum sé ljóst, jafnt í Rússlandi sem annars staðar, að rússneski herinn standi höllum fæti í baráttunni við þann úkraínska. Gagnrýni á Vladimír Pútín fari vaxandi og því sé líklegast að yfirlýsing Dmitrys Peskovs í Russia Today sé ætluð til heimabrúks, til að sefa rússneskan almenning. Sean Bell segist ekki búast við því að nein stefnubreyting sé í kortunum. Stríðsreksturinn haldi áfram og Zelenzky forseti verði áfram undir miklum þrýstingi.

Hver réðst á kjarnorkuverið?

Ásakanir hafa haldið áfram á báða bóga í dag um hver hafi gert sprengjuárásir á Zaporizhzhia kjarnorkuverið í Úkraínu um síðustu helgi. Tólf árásir voru gerðar og ollu nokkrum skemmdum. Þó er ekki talin hætta á kjarnorkuslysi, að mati Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Rafael Grossi, yfirmaður hennar, segir að með árásunum séu menn að leika sér að eldi. Hann krefst þess að farið verði að tilmælum hans um að koma upp hlutlausu belti umhverfis verið.

Rússar hafa setið um Zaporizhzhia frá upphafi innrásarinnar og haldið úkraínskum starfsmönnum versins föngnum. Sean Bell segir að ef sókn úkraínska hersins heldur áfram af sama krafti og að undanförnu verði rússneska herliðið í verinu æ einangraðra. Þá standi það frammi fyrir tveimur kostum, að berjast eða hörfa. Verði fyrri kosturinn fyrir valinu séu afar hættulegir tímar fram undan.

Landsnetið er verulega laskað

Úkraínski fjölmiðillinn  Kyiv Independent hefur í dag eftir Volodymyr Kudrytskyi, yfirmanni úkraínska landsnetsins Ukrenergo, að Rússar hafi skemmt hvert einasta stóra varma- og vatnsorkuver í landinu. Skemmdirnar segir hann að séu gríðarlegar. Því verði fyrirtækið að halda áfram að skammta landsmönnum rafmagn til að koma í veg fyrir að kerfið hrynji.

Rússar hafa haldið uppi flugskeyta- og drónaárásum á viðkvæmar lífæðar samfélagsins í Úkraínu frá því í síðasta mánuði. Stærstu árásina gerðu þeir á þriðjudag í síðustu viku með þeim afleiðingum að landið myrkvaðist. Að sögn úkraínskra stjórnvalda var níutíu flugskeytum skotið á raforkuver landsins. Starfsmenn Ukrenergo leggja nótt við dag við að laga það sem aflaga hefur farið, en ljóst er að ærið verkefni er fyrir höndum.

Japanar senda búnað

Utanríkisráðuneytið í Tókýó tilkynnti í dag að Japanar ætluðu að senda Úkraínumönnum búnað fyrir andvirði 360 milljóna króna; þar á meðal litlar rafstöðvar og luktir sem nýta sólarorku. Í tilkynningu ráðuneytisins segir að búnaðurinn sé ætlaður landsmönnum til að halda á sér hita yfir vetrarmánuðina og sem lýsing þegar rafmagn er skammtað.