Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Mikill verðmunur á heimsendum mat eftir sveitarfélögum

Mynd með færslu
 Mynd: Sölvi Andrason - RÚV
Það er nær tvöfalt dýrara fyrir eldri borgara á Seltjarnarnesi að panta heimsendann mat, miðað við það sem eldri borgarar í Vestmannaeyjum greiða. Þetta kemur fram í nýrri könnun þar sem þrettán stærstu sveitarfélög landsins voru borin saman.

Máltíðir á bilinu 955 til 1700 krónur

Á vefsíðunni Aldur er bara tala er borið saman verð á heimsendum mat í þrettán stærstu sveitarfélögum landsins. Þar kemur fram að eldri borgarar á Seltjarnarnesi eru þeir sem þurfa að greiða mest þar sem máltíðin kostar 1700 krónur. Þá eru Reykjanesbær, Garðabær, Akureyrarbær og Akranesbær einnig ofarlega á lista þar sem kostnaður við máltíðir er á bilinu 1300 til 1600 krónur. Eldri borgarar í Vestmannaeyjum borga minnst þar sem máltíðin er á 955 krónur.

Verð á heimsendum mat eftir sveitarfélögum
Seltjarnarnesbær 1700 kr.
Reykjanesbær 1611 kr.
Garðabær 1600 kr.
Akureyrarbær 1424 kr.
Akranesbær 1342 kr.
Kópavogur 1330 kr.
Mosfellsbær 1227 kr.
Fjarðabyggð 1250 kr.
Hafnarfjörður 1174 kr.
Múlaþing 1167 kr.
Árborg 1100 kr.
Reykjavíkurborg 1055 kr.
Vestmannaeyjabær 955 kr.

Gæði og magn matarskammta voru ekki metin við framkvæmd könnunarinnar.