Metfjöldi kórónuveirusmita í Peking

22.11.2022 - 05:35
epa10317366 People line up for a COVID-19 test in Beijing, China, 21 November 2022. Several schools in Beijing have shut and switched to online classes as COVID-19 cases continue to rise with China reporting it's first COVID-19 death in six months.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tilkynnt var í morgun um metfjölda kórónuveirusmita í kínversku höfuðborginni Peking. Íbúar borgarinnar eru þegar farnir að finna fyrir áhrifum harðrar lokunarstefnu stjórnvalda. Fyrstu Covid-tengdu andlátin frá því í maí urðu um helgina.

Yfir 28 þúsund tilfelli kórónuveirusmita greindust í gær, sem er nærri því það mesta frá upphafi faraldursins. Flest eru smitin í héraðinu Guangdong og í Chongqing-borg.

Fjöldi smita í Peking hefur meira en tvöfaldast frá því á sunnudag og reyndust 1.438 í dag sem er met. Fólk er beðið að ferðast ekki milli héraða og einstökum byggingum hefur verið lokað.

Borgaryfirvöld hafa þegar fyrirskipað að skólakennsla verði á netinu, fjölda veitingahúsa hefur verið lokað og starfsfólki margra fyrirtækja er gert að vinna heima hjá sér. Yfirvöld segja þrjá eldri borgara með undirliggjandi sjúkdóma hafa látist af völdum COVID-19 um helgina.

Kínversk stjórnvöld halda sig enn við núllstefnu sína, þar sem gripið er til útgöngubanns, fjöldaskimana og sóttkvíar til að hamla útbreiðslu veirunnar.

Embættismenn í Peking vilja þó forðast það sem gerðist í vor, þegar iðnaðarborginni Shanghai var lokað í tvo mánuði sem laskaði efnahag hennar og alþjóðlega ímynd.