Mætir fordómum með kærleika og gleði

Mynd: RÚV / RÚV

Mætir fordómum með kærleika og gleði

22.11.2022 - 09:43

Höfundar

Undanfarið ár hefur borið á bakslagi í réttindabaráttu hinsegin fólks. Bjarni Snæbjörnsson, leikari og höfundur sýningarinnar Góðan daginn, faggi, segir mikilvægt að mæta fordómum með samstöðu og kærleika. „Takk fyrir að koma upp á yfirborðið kæri fordómafulli einstaklingur, núna ætlum við aðeins að tala um þetta.“

Bjarni Snæbjörnsson hefur komið víða við. Hann er leikari og fyrrverandi leiklistarkennari og hefur starfað bæði með sjálfstæðum leikhópum og í stóru leikhúsunum undanfarin ár. Hann sló rækilega í gegn með ein- og söngleiknum Góðan daginn, faggi á síðasta leikári. Hann byggði verkið á eigin reynslu sem uppgjör við skömmina yfir því að vera hinsegin. Bjarni var gestur í Svipmyndinni í Víðsjá á Rás 1.  

Gamlar dagbækur urðu leikrit 

Bjarni hefur alla tíð skrifað mikið. „Ég hef alltaf verið rosa mikið fyrir að skrifa og skrifað mikið í dagbækur og bréf. Ofboðslega mikið, vægast sagt.“ Fyrir nokkrum árum fann hann gömlu dagbækurnar sínar og þegar hann fór að fletta í þeim uppgötvaði hann að þar væri sögu að finna. Hann ákvað að segja þessa sögu í einleiknum Góðan daginn, faggi sem hann vann í samvinnu við Grétu Kristínu Ómarsdóttur, leikstjóra, og Axel Inga Árnason, tónskáld. 

„Þegar ég var að skrifa verkið fór ég í dagbækurnar og fékk til baka nokkur bréf, bæði frá mömmu minni og tölvupósta sem við höfðum sent, og æskuvinkonu minni sem ég hafði skrifað mikið þegar ég var orðinn 17 ára,“ segir Bjarni. „Þetta eru ótrúlegar heimildir og merkilegar.“ 

Í dagbókunum segir Bjarni að sér hafi birst ljóslifandi hans unga sjálf. „Sem var alveg fáránlega fyndinn og þetta var líka sorglegt tímabil og alls konar erfiðleikar.“

Í verkinu segist Bjarni vera að gera upp fortíðina og rannsaka hvers vegna hann burðast enn um, fertugur hommi í hinsegin paradísinni Íslandi,  með skömm og sjálfshatur yfir eigin hinseginleika. 

Dásamlegar og sárar minningar í bland 

„Ég er alinn upp á Tálknafirði, litlum bæ, þar bjuggu um 350 manns þegar ég var lítill.“ Hann segir það að mestu hafa verið dásamlegt. „Mér leið vel og ég var í góðum bekk. Ég var svolítið heppinn, góðir krakkar sem héldu vel utan um hvert annað.“ Minningarnar eru þó ekki allar góðar. „Ég lenti líka í einelti og fékk að finna fyrir því að ég væri kannski ekki eins og flestir.“  

Bjarni átti vinkonur jafnt sem vini og var kallaður stelpustrákur því honum fannst gaman að leika sér með Barbie-dúkkur og Pony-hesta. „Þannig að maður fékk aðeins að finna fyrir því að maður tilheyrði ekki alveg strákahópnum sem voru flestir í fótbolta og körfubolta, sem mér fannst ekki skemmtilegt. Ég var meira í sundinu.“ 

Yfirskilvitleg upplifun á söngleik með pennavinkonu

Á Tálknafirði var virkt áhugaleikfélag sem Bjarna þótti skemmtilegt að fá að taka þátt í. „Maður var að skemmta sér með fólkinu þarna og það voru jafnaldrar mínir og á árshátíðum í grunnskóla lék maður leikrit.“ Töfrar leikhússins opinberuðust honum þó fyrst fyrir alvöru þegar hann sá söngleikinn Hárið í Gamla bíói árið 1994.  

„Ég fékk það í afmælisgjöf að fara suður,“ rifjar Bjarni upp. Hann fékk miða á frumsýninguna á Hárinu í gegnum Jóhönnu Jónasar, frænku sína, sem lék í verkinu. Fyrir sýninguna fór hann út að borða á Hard Rock í Kringlunni með pennavinkonu sinni frá Sauðárkróki sem hann hafði aldrei hitt áður en var fyrir tilviljun líka stödd í höfuðborginni. Saman tóku þau svo strætó úr Kringlunni niður í bæ og sátu saman á aftasta bekk. Sýningin breytti lífi Bjarna. 

„Ég átti einhverja yfirskilvitlega lífsreynslu, að fara að sjá þennan söngleik, þessa leiksýningu, með öllu þessu fólki.“ Hann hafði aldrei áður séð söngleik og ekki einu sinni söngvamynd en áttaði sig strax á því að þetta langaði hann að gera í framtíðinni. „Þannig að þetta var algjörlega risastórt móment fyrir mig að sjá þessa sýningu.“ 

Fylgdi innsæinu á tímamótum 

Bjarni lagði leiklistina fyrir sig. „Ég vil lifa í leiklist það sem eftir er ævi minnar.“ Hann starfaði lengi sem leiklistarkennari, fyrst hjá Leynileikhúsinu og síðar við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og segist hafa elskað þann tíma. „En svo kom að þeim tímapunkti að ég þurfti að hætta að kenna. Bæði var ég með smá kulnun og var mjög þreyttur á því og ég vissi að þetta væri tímabil sem væri búið.“ 

Bjarni fylgdi innsæinu og um svipað leyti kynntist hann Grétu Kristínu Ómarsdóttur, leikstjóra, sem þá var að útskrifast af sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands. Útskriftarverkefni hennar var leikritið Stertabenda, eða Perplex eins og það heitir á þýsku, eftir samtímaleikskáldið Marius von Mayenburg. Hún hafði samband við nokkra leikara til að leika í verkinu, þar á meðal Bjarna. „Þetta var á stórum tímamótum í mínu lífi. Ég var nýskilinn við manninn minn og ég var að byrja nýtt ferðalag sem leikari.“ 

Með þeim skapaðist vinskapur og farsælt samstarf. „Það er svo mikil gjöf að kynnast fólki eins og henni sem manni líður bara eins og viðkomandi sjái mann fyrir allt sem maður er, hundrað prósent. Það er ólýsanlega fallegt að vinna með þannig fólki og eiga þannig fólk í lífi sínu.“ 

Sársaukafullt ferli að breyta 

Bjarni hefur komið víða við á ferli sínum sem leikari og skemmtikraftur. Hann hefur komið fram með sjálfstæðum leikhópum, á sviðum stóru leikhúsanna, veislustýrt, verið í sýningarhópi Improv Ísland og kennt. Hann hefur því nokkuð yfirgripsmikla innsýn inn í heim sviðslista á Íslandi.  

Undanfarið hefur skapast umræða um inngildingu minnihlutahópa í leikhúsum, til dæmis á málþingi Þjóðleikhússins um samfélagsleg áhrif birtingamynda í sviðslistum. Bjarni fagnar umræðunni sem þó er ekki laus við átök. „Þetta er að einhverju leyti sársaukafullt ferli af því að það er margt að breytast og það er erfitt að taka utan um það.“ 

Hann tengi við umræðuna á persónulegan hátt þar sem hann sé hluti af hinsegin samfélaginu. Hann fagnar því að ný samfélagsleg meðvitund sé að verða til. „Við erum að læra svo margt og ég líka.“  

Auðmeltanlegasta birtingarmynd hinseginleika

Við skrifin á einleik sínum upplifði Bjarni mikla vitundarvakningu um eigin forréttindi. Hann segir sjálfan sig vera auðmeltanlegustu birtingarmynd hinsegin manneskju sem til er; hvítur, ófatlaður, sís-kynja, íslenskur karlmaður. „Áður en ég byrjaði að vinna þessa sýningu skilgreindi ég mig sem homma en núna geri ég það sem hinsegin af því að mig langar að tilheyra því regnhlífarhugtaki og standa þannig með trans systkinum mínum og kynsegin systkinum mínum og öllum hinum líka.“ 

Honum rennur blóðið til skyldunnar að nota eigin forréttindi til að styðja aðra. „Til að auka sýnileika og meðvitund um fordóma sem eru enn þá til staðar.“ Hann segir að því miður hafi hinsegin samfélagið rekist á fordóma undanfarið. „Þá er bara mikilvægt að mæta þeim með kærleika og gleði eins og hægt er.“ 

Hefur misst af tækifærum fyrir að vera of hommalegur 

Þrátt fyrir að njóta forréttinda hefur Bjarni ekki sloppið við mótstöðu á starfsvettvangi sínum. Hann segir það hafa háð sér á köflum að vera hinsegin í leikhúsi á Íslandi. „Ég hef fengið að heyra að ég sé of mjúkur á málróminn til dæmis og hef misst gigg í auglýsingum af því að ég hef verið of hommalegur.“ 

Hann segir þetta þó flókna umræðu og erfitt að benda á hörð dæmi um mótlæti eða fordóma. „Við erum öll hluti af þessu heterónormatíva sís-kynja samfélagi og við erum öll gegnsýrð af því og föttum það ekki einu sinni.“ Þessi samfélagsgerð hefur áhrif á hvaða sögur eru sagðar.  

Stundum finnur Bjarni til gremju. „Manni langar svo að vera reiður og segja hlustið á mig og berja í borðið.“ Það er þó ekki alltaf gagnlegt. „Það er svo mikilvægt að við tökum þetta samtal og reynum að gera það í kærleika.“ 

Rætt var við Bjarna í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.  

Tengdar fréttir

Menningarefni

Lag Hinsegin daga 2022

Leiklist

Fyndin og átakanleg sýning um sjálfshatur

Leiklist

Söngleikjahommi gerir upp líf sitt

Leiklist

„Það var ég sem hataði mig“