Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fólk ekki hvatt til að halda sig fjarri miðbænum

22.11.2022 - 17:19
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur verið með aukinn viðbúnað í miðbæ Reykjavíkur eftir hnífaárásina á fimmtudag og verður með það áfram um helgina. Þetta segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðarlögreglustjóri. Tveir voru í dag úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald og eru nú alls fjórtán í haldi lögreglu. Þriggja manna er enn leitað en talið er að einn þeirra sé farinn úr landi.

„Við höfum verið með aukin viðbúnað eftir árásina á Bankastræti Club og  verðum áfram hann,“ segir Ásgeir í samtali við fréttastofu.

Meðal annars verða á vakt lögreglumenn sem eru í sérstökum aðgerðahóp og hafa verið að aðstoða við að finna sakborninga í málinu og handtaka þá. 

Ásgeir segir að eins og staðan sé í dag verði fólki ekki ráðlagt að forðast miðbæinn um helgina. Fjölmiðlar hafa í dag fengið send skjáskot þar sem varað er við yfirvofandi hefndarárásum. Ásgeir segir að vissulega geti lögregla ekki skellt skollaeyrum við slíku.

Verið  sé að leggja mat á það hversu mikil alvara búi þarna að baki. Í grunninn snúist þetta mál um hótanir, skemmdarverk og árásir og síðan þurfi alltaf að leggja mat á það hvort öryggi almennings sé ógnað.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, upplýsir í samtali við fréttastofu að tveir til viðbótar hafi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna hnífstunguárásarinnar á fimmtudag. Fjórtán eru nú í haldi, einum hefur verið sleppt og þriggja er enn leitað. Talið er að einn þeirra sé farinn úr landi. Alls hafa 28 verið handteknir í tengslum við málið.