Benda hver á annan í „dylgjuleik“ um skýrsluleka

22.11.2022 - 14:44
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Pírata halda áfram deilum sínum um það hver lak til fjölmiðla skýrslu Ríkisendurskoðunar um Íslandsbankasöluna . Og benda hver á annan í því sem kallað var „dylgjuleikur“ á Alþingi í dag.

Ekki er langt síðan að þung orð voru látin falla í þingsal um hver hefði lekið skýrslunni og hvers vegna. Sumum hefur þótt bagalegt að þingmenn hafi getað virt trúnað á meðan aðrir benda á að málið sé ekki svona alvarlegt.

Í umræðum um málið í síðustu viku var kallað eftir því að forseti Alþingis léti rannsaka málið en stjórnarandstaðan gagnrýndi það og spurði hvort forsetinn ætti að fara í einhvern lögguleik.

Hildur Sverrisdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kvaddi sér síðan hljóðs um málið undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag og gerði orð Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, um lekann að umtalsefni.

Sagði Hildur augljóst að hverju Björn hefði verið ýja með orðum sínum í síðustu viku; að það hefði verið hún sem lak skýrslunni. „Ég hafna því harðlega,“ sagði Hildur og bætti við að Björn væri maður að meiri ef hann bæðist afsökunar á þessum orðum sínum.  Þau væru þinginu til minnkunar og sjálf myndi hún „aldrei standa hér í þessari mikilvægu pontu og fabúlera um hver mér þyki líklegastur til að hafa lekið þessari skýrslu.“

Forseti Alþingis gerði athugasemd við notkun á orðinu „fabúlera“ og sagði íslensku það tungumál sem notað væri í þingsal. 

Björn Leví sagðist standa við þau orð sem hann lét falla. „Ég var að benda á að það voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem byrjuðu á því að ásaka alla hina í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um lekann,“ sagði Björn í upphafi ræðu sinnar sem fjallaði um ástandið í fangelsum landsins.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, sagði rétt að halda því til haga að það hefðu verið þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem hefðu byrjað „dylgjuleikinn.“ Tveir varaþingmenn flokksins hefðu beinlínis gert það úr ræðustól Alþingis og það væru því þeir sem ættu að biðjast afsökunar. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV