Segjast hafa fundið „pyntingarklefa“ í Kherson

21.11.2022 - 12:15
epa10296356 Russian conscripts pictured at a railway station in Sevastopol before leaving to serve in the war, Crimea, 09 November 2022. In 2022, as part of the autumn conscription, the number of those called up for military service will be 120 thousand people. Male citizens of the Russian Federation aged 18 to 27 who have not previously completed military service fall under the autumn draft. Conscripts of the autumn conscription will not be sent to serve in the DPR, LPR, Zaporizhzhia and Kherson regions.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE/STRINGER
Stjórnvöld í Úkraínu segjast hafa fundið fjóra staði í borginni Kherson þar sem rússneskir hermenn pyntuðu fanga, áður en herlið Rússa var dregið til baka úr borginni fyrr í þessum mánuði, þegar Úkraínumenn náðu henni aftur á sitt vald.

Kherson, sem er í suðurhluta Úkraínu, var hernumin af Rússum stuttu eftir innrásina í landið. Úkraínumenn endurheimtu borgina í byrjun mánaðar og nú segjast þarlend stjórnvöld hafa uppgötvað fjögur húsakynni þar sem Rússar „fangelsuðu fólk ólöglega og pyntuðu það grimmilega.“

Í síðustu viku var sagt frá því að merki um pyntingar hefðu fundist á líkum sextíu og þriggja almennra borgara í Kherson. Rannsakandi á vegum úkraínska ríkisins sagði ummerki um stórfelldar misþyrmingar. Dmytro Lubynets, sem rannsakar grimmdarverk Rússa, kvaðst aldrei hafa séð nokkuð líkt því sem fundist hefur eftir að Rússar hörfuðu.

Kherson er í samnefndu héraði sem er hernaðarlega mikilvægt enda liggur það að Krímskaga. Það var eitt þeirra fjögurra héraða sem Rússar sögðust hafa innlimað 30. september, með atkvæðagreiðslum sem alþjóðasamfélagið hefur fordæmt og sagt ólöglegar.

Vikurnar áður en Úkraínumenn náðu Kherson til baka höfðu þeir frelsað fjölda bæja og þorpa í héraðinu. 

Samkvæmt frétt CBS segja Úkraínumenn að hersveitir Rússa hafi breytt lögreglustöð í Kherson í pyntingarklefa. Enn séu þar verkfæri og önnur ummerki um misþyrmingarnar. 

Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir
Fréttastofa RÚV