Gagnrýna leynd um greinargerð ríkisendurskoðanda

21.11.2022 - 16:59
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess á Alþing í dag að greinargerð Ríkisendurskoðunar um Lindarhvol verði birt opinberlega. Þeir sökuðu forseta Alþingis um að standa í vegi fyrir að greinargerðin verði birt.

Lindarhvol ehf. var stofnað árið 2016 til að halda utan um eignir sem ríkið fékk í kjölfar bankahrunsins í tengslum við stöðugleikaframlag kröfuhafa hinna föllnu banka.

Alþingi fékk árið 2018 greinargerð frá settum ríkisendurskoðanda um starfsemi Lindarhvols en hún hefur ekki verið gerð opinber. Málið hefur verið til umfjöllunar í forsætisnefnd.

Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess við upphaf þingfundar í dag að greinargerðin verði birt og sökuðu Birgi Ármannsson forseta Alþingi um að koma í veg fyrir birtingu.

„Þessari greinargerð neitar forseti Alþingis að skila Alþingi Íslendinga þrátt fyrir lögfræðiálit, þrátt fyrir kærur og þrátt fyrir dóm Hæstaréttar í sambærilegu máli, það er að segja lögbannsmálinu frá 2019, þess efnis að slíkar upplýsingar varði almannahag og eigi þess vegna að koma fyrir augu almennings. Þrátt fyrir þetta allt saman neitar forseti Alþingis enn þá að skila Alþingi og almenningi þessum mikilvægu upplýsingum,“ sagði Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar.

„Þarna á bak við er mikil sorgarsaga“

Fleiri þingmenn tóku í sama streng.

„Í síðustu viku ræddum við um skýrslu sem sýnir hvernig fjármálaráðherra mistókst að tryggja opið söluferli, gagnsæi og jafnræði við sölu á tugmilljarða hlut í Íslandsbanka. Í því tilviki hefur almenningur bæði fengið að sjá úttektina sjálfa og drög að úttektinni sem aðeins örfáar stofnanir og þrír ráðherrar höfðu aðgang að. En þegar kemur að sölu Lindarhvols á 400 milljarða stöðugleikaeignum hjá einkahlutafélagi sem heyrði beint undir hæstvirtan fjármálaráðherra er sleginn hér leyndarhjúpur um greinargerð setts ríkisendurskoðanda,“ sagði Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar.

„Það hlýtur að þykja furðulegt í ljósi þess að eins og ég skil stöðuna í forsætisnefnd þá er forseti eini maðurinn þar sem vill ekki birta þetta og hefur síendurtekið slegið þessu á frest, því að forseti getur nú ekki stoppað þetta en getur samt stoppað birtinguna með því að slá henni á frest,“ sagði Halldóra Mogensen þingmaður Pírata.

„Þetta er eitt af þessum hrunmálum sem þarf að fara að gera upp. Þarna á bak við er mikil sorgarsaga, fullt af fólki sem missti eignir sínar og ég bara næ því ekki að við skulum enn þá vera með einhver leyndarmál á bak við þann harmleik,“ sagði Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins.

Þingmenn Viðreisnar og Miðflokksins hvöttu einnig forseta Alþingis til að birta greinargerðina.

Alvarlegar athugasemdir

Birgir Ármannsson forseti Alþingis sagði málið væri til umfjöllunar í forsætisnefnd. Fram hafi komið alvarlegar athugasemdir frá ríkisendurskoðanda og stjórnar Lindarhvols sem hafi gefið tilefni til að skoða málið að nýju á vettvangi forsætisnefndar.

„Það sem ágreiningur snýst um í þessu tilviki er greinargerð frá árinu 2018 sem var ekki fullkláruð skýrsla til Alþingis samkvæmt lögum um Ríkisendurskoðun og þar liggur ákveðinn lögfræðilegur vandi sem forsætisnefnd er með til meðferðar,“ sagði Birgir.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV