Fimm fórust í stórbruna í Moskvu

21.11.2022 - 00:47
Erlent · Bruni · Eldsvoði · Lestarsamgöngur · Moskva · rafmagn · Rússland · Slökkvilið · þyrlur · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: Ritzau Scanpix
Að minnsta kosti fimm létu lífið í dag þegar kviknaði í stórri vörugeymslu við eina af aðallestarstöðvum Moskvu, höfuðborgar Rússlands. Tass fréttastofan greinir frá þessu, segir eins saknað og að sjö hafi bjargast úr brunanum.

Eldurinn kviknaði klukkan þrjú síðdegis að staðartíma en slökkvilið Moskvuborgar réði niðurlögum eldsins nú í kvöld. Frumrannsókn bendir til að upptök hans megi rekja til rafmagnsbilunar.

Um það bil 80 slökkviliðsmenn glímdu við eldinn auk þess sem þrjár þyrlur voru notaðar. Eldsvoðinn truflaði ekki lestarsamgöngur til og frá borginni að því er fram kemur í frétt RIA Novosti. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV