Englendingar snýttu Írönum

Mynd: EPA-EFE / EPA

Englendingar snýttu Írönum

21.11.2022 - 15:18
England byrjaði HM karla í fótbolta með látum í Katar. Englendingar burstuðu Íran, 6-2 í B-riðli mótsins í dag.

Leikmenn Írans ákváðu að þegja þegar þjóðsöngur landsins var leikinn fyrir leik. Það gerðu þeir til að mótmæla meðferðinni á 22 ára kúrdískri konu sem hét Masha Amini og lét lífið eftir harkalega handtöku siðgæðislögreglunar í Íran fyrr í haust. Hún hafði verið tekin höndum eftir athugasemd siðgæðislögreglunar hvernig hún bar höfuðslæðu sína.

Inni á vellinum í leiknum sjálfum voru það Englendingar sem réðu lögum og lofum. Alireza Beiranvand markvörður Írans fór nefbrotinn af leikvelli eftir 20 mínútna leik og langt hlé. Eftir það réðu svo Englendingar ferðinni að öllu leyti. Jude Bellingham kom Englandi í 1-0 á 35. mínútu. Bukayo Saka jók muninn í 2-0 á 43. mínútu og Raheem Sterling bætti þriðja markinu við á 45. mínútu.

Markasúpa í leiknum

Í seinni hálfleik skoraði Saka annað mark sitt í leiknum þegar hann kom Englandi í 4-0 á 62. mínútu. Mehdi Taremi minnkaði muninn fyri Íran í 4-1 á 65. mínútu. Marcus Rashford sem kom inn á sem varamaður á 70. mínútu var fljótur að stimpla sig inn því hann skoraði aðeins mínútu eftir að hann kom inn á og kom Englandi í 5-1. Það var svo Jack Grealish sem skoraði sjötta markið á 90. mínútu. 

Íran krækti í vítaspyrnu í uppbótartíma leiksins. Mehdi Taermi tók vítspyrnuna og skoraði. Annað mark hans í leiknum. Úrslitin urðu þar með 6-2 fyrir England. Með Englandi og Íran í B-riðlinum eru svo Bandaríkin og Wales. Þau mætast í kvöld klukkan 19:00. Tvö efstu lið riðilsins komast áfram í 16-liða úrslit HM.